Ákall FYRSTU FIMM

um barnvænna samfélag

Við þurfum að gera MIKLU betur

Vilt þú leggja okkur lið og sameinast um velferð barna og fjölskyldna þeirra?

Fyrstu fimm sendir frá sér ákall í þremur liðum til að krefjast barn- og fjölskylduvænna breytinga í íslensku samfélagi. Ákallið nær til borgarfulltrúa Reykjavíkurborgar, þingmanna og atvinnulífsins. Við hvetjum þig til að skrifa undir ákallið í heild sinni en einnig gefst þér kostur á að skrifa undir hvern lið fyrir sig.

Fyrirvari: Ákall til borgarfulltrúa Reykjavíkurborgar er aðeins byrjunin, í framhaldi verður ákallið sent á önnur sveitarfélög landsins og til þess þurfum við þinn stuðning.  Við viljum heyra frá þér hvaða sveitarfélög ættu að fylgja á eftir ?

Ákallið

ATH ÞAÐ ÞARF AÐ STAÐFESTA UNDIRSKRIFTINA Í GEGNUM TÖLVUPÓST

Til þingmanna

Óskað er eftir undirskrift þinni ágæti þingmaður til samþykktar á tillögum FYRSTU FIMM.

Sveitafélög hafa kallað eftir ríkisstuðningi vegna afleiðinga Covid-19 en mikilvægt er að fjármagni sé varið þar sem það er brýnast. Foreldrar eru mikilvægustu mótunaraðilar barna sinna en í 253 umsögnum um drög að frumvarpi nýrra fæðingarorlofslaga kemur fram að börn fá að meðaltali ekki inngöngu í leikskóla fyrr en um 18-20 mánaða aldur. Til að draga úr álagi sem þessi staða veldur ætti að lengja fæðingarorlof sem þessu nemur eða þar til Ísland nær sama árangri og gerist best á Norðurlöndunum. Með þessu má draga verulega úr óæskilegu álagi sem börn, foreldrar og leikskólasamfélagið eru undir.

Til borgarfulltrúa

FYRSTU FIMM vilja nýta hina miklu þátttöku feðra í notkun fæðingarorlofs enn frekar. Íslenskir feður nýta um 30% af fæðingarorlofi sem tekið er, mæður hin 70%.

Þátttaka íslenskra feðra í töku fæðingarorlofs er á pari við sænska feður. Það er eftirtektarvert í ljósi þess að fæðingarorlof feðra á 25 ára lengri sögu í Svíþjóð en á Íslandi. Á öðrum Norðurlöndum nýta feður um 10% af orlofinu. Í þeim 253 umsögnum um drög að frumvarpi nýrra fæðingarorlofslaga kemur fram að foreldrar og fagfólk hafa miklar áhyggjur af því að börn fái að meðaltali ekki inngöngu í leikskóla fyrr en um 18-20 mánaða aldur. Streita og kvíði sem þessar aðstæður valda barnshafandi pörum og ungbarnafjölskyldum verður að taka enda.

A: Lagt er til að foreldrar sem fullnýta fæðingarorlof sitt ásamt því að standast ákveðnar kröfur um foreldrafærni bjóðist að annast barnið sjálf í auknum mæli til tveggja eða þriggja ára aldurs. Til þess að það sé val fyrir sem flesta þarf að veita foreldrum hluta af því fjármagni sem Reykjavíkurborg ver til niðurgreiðslu leikskóla. Val væri um að annað hvort fengju foreldrar 60% af fjármagninu og myndu annast barn sitt sjálf að fullu til 2ja- 3ja ára aldurs eða ættu kost á 50% leikskólavist og fengju 30% af því fjármagni sem Reykjavíkurborg ver til niðurgreiðslu leikskóla. Með þessu vali myndi um leið draga úr álagi á aðþrengt leikskólastarf.

B: Sex klukkustunda gjaldfrjáls leikskólavist á dag verði í boði fyrir alla foreldra. Velji foreldrar lengri vistunartíma greiða þeir þann kostnað sem því fylgir að fullu. Sem dæmi þá hækkar vistunarkostnaður fyrir átta klukkustundir hugsanlega um allt að 100%. Foreldrar á launum undir lágmarks framfærslu og börn einstæðra foreldra fá átta klukkustundir sér að kostnaðarlausu.

Með þessum leiðum má fyrirbyggja alvarlegar afleiðingar streitu á meðgöngu og fyrstu ára í lífi barna og jafnframt auka þátt karla/feðra í umönnun ungra barna. Í þeim felst einnig tækifæri til að reyna nýjar leiðir þar sem mennta- og velferðarkerfið stendur ekki undir því álagi sem núverandi ástand veldur.
Aðkallandi þörf er á breytingum í leikskólastarfi hjá Reykjavíkurborg. FYRSTU FIMM óska eftir liðsauka frá Reykjavíkurborg í að vinna að lengingu fæðingarorlofsins í 18 mánuði.

Til atvinnulífsins

Það er staðreynd að íslenskir foreldrar vinna mun fleiri stundir á viku en aðrir foreldrar á Norðurlöndum. Reglulega benda alþjóðlegar skýrslur og innlendir sérfræðingar á þörfina á umbótum þegar kemur að umönnun og uppeldi barna okkar. Í 253 umsögnum um frumvarp til nýrra fæðingarorlofslaga kemur skýrt fram að foreldrar og fjölskyldur eru undir miklu streituálagi á viðkvæmu æviskeiði barna sinna. Félag íslenskra fæðinga- og kvensjúkdómalækna talar fyrir ákvæði um meðgönguorlof frá 36. viku sem dregst ekki frá réttindum eftir fæðingu. Einnig er lagt til að maki/aðstandandi fái umönnunarorlof fyrsta mánuð eftir fæðingu barns til stuðnings móður og barni án þess að það dragist frá fæðingarorlofsréttindum.

Ég vil skrifa undir:

ATH ÞAÐ ÞARF AÐ STAÐFESTA UNDIRSKRIFTINA Í GEGNUM TÖLVUPÓST

Frekari upplýsingar

Fæðingarorlof hefjist á 36. viku meðgöngu:

FYRSTU FIMM tekur undir með félagi íslenskra fæðingarlækna.

Mikið álag er á konur á seinni hluta meðgöngu, jafnvel þær sem eru í eðlilegri meðgöngu án sjúkdóma eða fylgikvilla, en algengt er að þær leiti til lækna og mæðraverndar vegna algengra fylgikvilla meðgöngunnar til að fá veikindavottorð. Í núverandi lögum eru ákvæði um að konur geti hafið fæðingarorlof fyrir fæðingu en með skertum fæðingarorlofsrétti eftir fæðingu en það er reynsla fagfólks í mæðravernd að konur nýti ekki rétt sinn vegna skerðingarinnar. Þetta veldur umtalsverðu álagi á lækna og ljósmæður.

Í Noregi og Danmörku eru ákvæði í lögum að konur hefji fæðingarorlof á 36 viku meðgöngu án skerðingar eftir fæðingu. Við teljum að íslenskar konur eigi, ekki síður en kynsystur þeirra á norðurlöndum, að hafa þennan rétt. Þess má geta að ákveðin sveitarfélög hér á landi (sbr. Hveragerði) hafa nú þegar hafið þessa vegferð og því er þetta ekki óþekkt hér á landi.

Ójafnvægi milli vinnu og fjölskyldulífs

Atvinnulífið vill ráða til sín ungt og hæfileikaríkt fólk en fyrstu starfsárin á vinnumarkaði eru oft talin gjöfulust. Ungt fólk er oft á tíðum bæði að stíga sín fyrstu skref á vinnumarkaði og á sama tíma að stofna fjölskyldu en þessu fylgir óhjákvæmilega mikið álag og streita. Niður­stöður rannsókn­a­, sem birt­ust í Journal of Occupati­onal Health Psychology, styðja þetta en fólk með ung ­börn eru jafnan óánægðari í vinnunni vegna mikils álags. Í ýmsum mikilvægum atvinnugreinum á Íslandi er ungt fólk á vinnumarkaði takmörkuð auðlind og því mikilvægt að styrkja unga foreldra svo þeir upplifi aukið jafnvægi á milli vinnu og fjölskyldulífs.

Vinnuveitendur gætu aukið vellíðan og tryggð starfsmanna sinna með því að bæta þeim upp launamissi í fæðingarorlofi að hluta eða öllu leyti sem hluta af uppsöfnunum fríðindum t.d. í þremur stigum eftir 2, 4 og 6 ár í farsælu starfi.

Álag á parasambönd foreldra með ung börn:

Rannsóknir, m.a. Johns Gottmans, sýna að fæðing barns reynir umtalsvert á parasambönd, sérstaklega fyrstu þrjú árin. Allt að 70% foreldra upplifa minni ánægju í parsambandinu á þessum tíma og ágreiningur allt að áttfaldast en sterkar vísbendingar eru um að hér á landi ríki ákveðin þöggun um þá streitu sem barneignir hafa á parasambönd. Fyrstu fimm leggja til að verðandi foreldrum bjóðist jafnréttisfræðsla (á sömu forsendum og önnur starfstengd fræðsla) til að draga úr óánægju og ágreiningi foreldra, börnum þeirra til hagsbóta. Einnig getur markviss stuðningur og fræðsla fyrir unga foreldra sbr. SES Samvinna eftir skilnað – barnanna vegna, komið í veg fyrir langtíma áhrif skilnaðarátaka á börn en sýnt hefur verið fram á að verkefnið dragi verulega úr geðrænum erfiðleikum og veikindum þátttakenda (COWI, 2020).

 

Bæta þarf stöðu barnafjölskyldna á Íslandi og fyrirbyggja skaða sem þessi hópur verður fyrir vegna álags og streitu. Ákall Fyrstu fimm er liður í að vinna að framförum á þessu sviði hér á landi.

Menu