Fyrstu fimm

Opið bréf til Ríkisstjórnar Íslands um fjölskyldu- og barnvænna samfélag

                                                                                                                      Reykjavík 20.12.2021

Opið bréf til Ríkisstjórnar Íslands


Hæstvirt ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur,

Í tilefni þess að ný ríkisstjórn skilgreinir um þessar mundir áherslur sínar fyrir komandi kjörtímabil viljum við, höfundar þessa bréfs, beina sjónum hennar að stöðu barna á Íslandi í alþjóðlegum samanburði og skora á ríkisstjórn að koma á fót aðgerðum í þágu umbóta í málaflokknum. Þá viljum við bjóða fram krafta okkar til að vinna með stjórnvöldum sem foreldrar og fagaðilar að bjartari framtíð fyrir börnin okkar.

Við bendum fyrir það fyrsta á niðurstöður skýrslu UNICEF frá árinu 2020. Þar kom fram að íslensk ungmenni eru í verri stöðu en ungmenni annarra Evrópuþjóða er viðkemur færni í námi og félagslífi eða í 34. sæti af 38 og í 24. sæti af 38. þegar viðkemur andlegri líðan, líkamlegri heilsu og náms- og félagsfærni. Dvalartími barna á Íslandi er sá lengsti sem þekkist í Evrópu, en 88% íslenskra barna eru í leikskóla 8-9 klukkustundir alla virka daga. Takmarkað fjármagn hefur fylgt sívaxandi álagi á leikskóla eða styttingu vinnuviku sem skapað hafa erfiðar starfsaðstæður í leikskólum um allt land. M.t.t. dvalartíma, starfsaðstæðna og hlutfalls leikskólakennara, sem nú er 28% þegar lögbundið hlutfall á að vera 67%, hefur staðan aldrei verið verri síðan leikskólar voru lögfestir árið 1994. Samhliða þessari þróun er vert að nefna að íslenskir foreldrar verja að jafnaði mun fleiri stundum dagsins við vinnu en heima fyrir. Í alþjóðlegum samanburði er Ísland er í 33. sæti af 40 löndum innan OECD þegar kemur að jafnvægi milli vinnu og einkalífs. Það er staðreynd að langur vinnutími og þannig takmörkuð lengd frítíma sé mikilvæg þegar kemur að andlegri heilsu og getu til að veita börnum sínum þá kærleiksríku umönnun sem þau þurfa á fyrstu stigum lífsins.

Helstu umönnunaraðilar ungra barna á Íslandi, foreldrar þeirra en ekki síður starfsfólk leikskóla sem sinnir uppeldi og menntun barna, eru undir miklu álagi og alltof algengt er að heyra um viðvarandi streitu meðal þessara hópa. Sjaldnar er talað um þau skaðlegu áhrif sem álag á  starfsfólk leikskóla hefur á börnin sjálf. Ung börn eru viðkvæm og þurfa mikla og einstaklingsmiðaða umönnun og menntun en samfélagsgerðin, eins og hún hefur þróast og er í dag, tekur alls ekki tillit til þessara þarfa.

Þessi vegferð er ekki greypt í stein. Fjöldi aðgerða hafa þegar verið lagðar til hvað varðar umbætur í málaflokki barna. Vel til þess fallnar eru aðgerðir sem miða að aukinni hlutdeild foreldra í lífi barna sinna á grundvelli annarra kosta en að skóladagur barna sé of langur eins og tölurnar sýna. Aðgerðir, sem efla forsendur tengslamyndunar í frumbernsku og minnka álag á opinberar stofnanir. Þá er aðkallandi þörf fyrir að stefnumótun miði sérstaklega að því að minnka álag og streitu í nánasta umhverfi ungra barna til að efla getu helstu umönnunar- og menntunaraðila til að mæta þörfum þeirra fyrir kærleiksríka, nána umönnun og menntun.

Við undirrituð, hvetjum nýja ríkisstjórn til að taka stöðu barna á Íslandi í dag alvarlega, og gera viðamiklar breytingar sem miða að umbótum í þágu okkar viðkvæmustu þegna. Við skorum á stjórnvöld að vinna með foreldrum og fagaðilum að því að búa svo um að Ísland verði meðal forysturíkja er viðkemur málaflokki barna og fjölskyldna og bjóðum þess efnis fram krafta okkar og samráð á komandi kjörtímabili.

Fyrir hönd eftirfarandi samtaka og fagaðila:

Félag stjórnenda leikskóla
Félag leikskólakennara
Fyrstu Fimm
Heimili og skóli
Jógasetrið
Kviknar
Leið að uppeldi
Meðgöngufræðsla Ólafs Grétars
Meðvitaðir foreldrar
Memm play
Sæunn Kjartansdóttir sálgreinir
Þorpið – Tengslasetur