Fyrstu fimm

Til foreldra leikskólabarna – versta staða leikskóla í 30 ár – hvernig náum við jafnvægi?

Eftir Önnu Mjöll Guðmundsdóttur.

Höfundur er varaformaður hagsmunafélagsins Fyrstu fimm, þar sem foreldrar og fagaðilar, beita sér fyrir barn- og fjölskylduvænna samfélagi. Markmið félagsins er að öll umönnun og tilfinningalegar þarfir ungra barna verði settar í forgang. Íslenska leikskólakerfið er komið að þolmörkum vegna mikils álags. Samfélagið í heild sinni þarf því að veita foreldrum stuðning, rými og skilning á mikilvægi aukinnar foreldaþátttöku í lífi barna sinna en það er mikilvægur liður í að draga úr vanda leikskólanna og geðheilbrigðiskerfisins. Málefnaleg umræða verður að eiga sér stað meðal allra hagsmunaaðila; foreldra, atvinnulífsins og stjórnvalda.

Lífsgæðaþróunarhagfræðingurinn James J. Heckman fékk nóbelsverðlaun árið 2000 fyrir Heckman-kúrfuna. Um er að ræða líkan sem sýnir að fjármunum hins opinbera er best varið ef lögð er áhersla á að standa vörð um lífsgæði manneskju allt frá móðurkviði og fyrstu æviár hennar en með því spari samfélagið margfalt til lengri tíma litið. Óháð hagrænu samhengi er mikilvægt að stuðla að barnvænu samfélagi, stuðla að sem mestum lífsgæðum barna og kanna úrræði til að koma í veg fyrir of mikið álag og streitu í lífi þeirra.

Samfélagslegt samþykki fyrir aukinni geðtengslamyndun foreldra og barna

Hagsmunafélagið Fyrstu fimm hefur bent á ýmsar leiðir til að draga úr streitu hjá ungum börnum. Okkar helstu sérfræðingar í geðheilbrigðismálum barna s.s. Sæunn Kjartansdóttir sálgreinir, telja foreldra í flestum tilfellum hæfasta í að veita barni sínu einstaklingsmiðaða og ástríka umönnun. Í ljósi þess liggja okkar áherslur á enn frekari lengingu fæðingarorlofs með virkri þátttöku beggja/allra kynja en það myndi draga verulega úr þrýstingi á inntöku sífellt yngri barna í leikskóla. Við leggjum áherslu á: að foreldrar sem hafa tök á að verja meiri tíma í umönnun barna sinna fái meðbyr og hvatningu til þess; að auka sveigjanleika í starfshlutfalli foreldra; að sveitafélög bjóði 6 klukkustunda fría leikskólavist til að hvetja til styttri dvalartíma barna í leikskóla en þeir foreldrar sem hafa tök á því myndu létta á leikskólakerfinu auk þess sem það gefur starfsfólki betri forsendur til að sinna þeim börnum sem eru með lengri dvalartíma án kostnaðarauka sveitafélaga við rekstur leikskóla.

Hagfræðingar og fagaðilar s.s. Margrét Pála Ólafsdóttir leikskólakennari og Sæunn Kjartansdóttir sálgreinir hafa bent á kosti þess að foreldrar fái hluta af því fjármagni sem sveitarfélög greiða með hverju barni í leikskóla, kjósi þeir að vera lengur heima með ung börn sín. Slíkar greiðslur, sem við gætum kallað umönnunargreiðslur, hafa verið gagnrýndar vegna ótta um öryggi ákveðins hóps barna en öflugt eftirlit þarf að vera til staðar ásamt mati á hæfni foreldra. Hluti af því er að veita öfluga foreldrafræðslu frá meðgöngu en einnig öfluga jafnréttis- og uppeldisfræðslu fyrir feður til að stuðla að frekara kynjajafnrétti.

Foreldrar og leikskólar vinni saman að lausnum með hag barna fyrir brjósti

Helstu umönnunaraðilar ungra barna á Íslandi, foreldrar þeirra en ekki síður starfsfólk leikskóla, eru undir miklu álagi og alltof algengt er að heyra um viðvarnandi streitu meðal þessara hópa. Sjaldnar er talað um þau skaðlegu áhrif sem álag á umönnunaraðila hefur á börnin sjálf. Ung börn eru viðkvæm og þurfa mikla og einstaklingsmiðaða umönnun en samfélagsgerðin, eins og hún hefur þróast og er í dag, tekur alls ekki tillit til þessara þarfa.

Fyrstu fimm hefur frá upphafi verið umhugað um leikskólastigið enda eru leikskólar stór hluti af lífi barna fyrstu fimm árin og höfum við verið í góðum tengslum við leikskólasamfélagið í gegnum viðburði og samtöl við formann og varaformann Félags leikskólakennara, aðila í stjórn félags leikskólastjórnenda auk alls þess frábæra leikskólastarfsfólks sem eru virkir þátttakendur í grasrótarstarfi okkar.

Ísland á Evrópumet í lengd dvalartíma í leikskólum samkvæmt skýrslu Eurydice (samstarfsvettvangur Evrópuþjóða á sviði menntamála) frá 2019. Í samantekt Önnu Magneu Hreinsdóttur á skýrslunni kemur fram að meðaldvalatími barna í Evrópu séu 28 klst. á viku en samkvæmt Hagstofu Íslands (2019) voru börn að meðaltali í leikskóla í 37,3 (undir 3 ára) til 38 tíma (3 ára og eldri) á viku hér á landi. Í grein Örnu H. Jónsdóttur o.fl. frá 2013 kemur fram að mælingar á streituhormónum hjá leikskólabörnum er mismunandi eftir gæðum leikskóla. Í því ljósi væri eðlileg krafa að skilyrði barna í leikskólum væru eins og best verður á kosið og í samræmi við það sem leikskólasamfélagið hefur kallað eftir áratugum saman.

Staðan í dag sú versta síðan leikskólar voru lögfestir árið 1994

Allt frá árinu 1994, þegar lög um leikskóla, nr. 78/1994, voru fyrst samþykkt á Alþingi og leikskólar voru stofnaðir í þeirri mynd sem við þekkjum þá í dag, hefur leikskólastigið vaxið hratt. Ómögulegt hefur reynst að uppfylla mikilvæg lögfest skilyrði laganna, sem voru fest eftir samráð við færustu fagaðila um þarfir ungra barna, en þeim á og verður að framfylgja.

Meðal þess sem hefur valdið auknu álagi á leikskólana allt frá stofnun þeirra er aldur barna við inntöku en árið 2000 varð sprengja í inntöku tveggja ára barna. Síðan þá hefur þrýstingur á að sífellt yngri börn séu tekin inn aukist ár frá ári. Meðaldvalarlengd barna í leikskólum hefur einnig þróast mjög hratt en um aldamótin var algengast að dvalartími barna í leikskóla væri hálfur dagur en nú eru 88% barna á landinu með dvalartíma í 8 til 9 klukkustundir á dag og jafnvel lengur samkvæmt Hagstofu Íslands (2021). Annar álagspunktur er stytting vinnuvikunnar en ekkert fjármagn hefur fylgt aðgerðinni þó krafa sé gerð um sömu þjónustu með óbreyttan dvalartíma barna.

Hlutfall leikskólakennara hefur ekki fylgt þessari þróun en að meðaltali eru aðeins um 28% starfsmanna leikskólakennaramenntaðir í stað 67% eins og lög segja til um. Þrátt fyrir að unnið hafi verið að því að hækka þetta hlutfall og búið sé að leysa ýmis atriði varðandi kjarabaráttu leikskólakennara eru vísbendingar um að starfsskilyrði í leikskólum séu verri en á öðrum skólastigum. Þetta sést vel á því að eftir tilkomu leyfisbréfs frá 2019/2020, sem leyfir kennurum að færa sig á milli skólastiga, hefur gríðarleg tilfærsla leikskólakennara yfir í grunnskólana átt sér stað. Markmiðið með leyfisbréfinu var að auka flæði á milli skólastiga en reyndin er sú að 298 leikskólakennarar hafa nú fært sig yfir á grunnskólastigið á móti 97 sem komu yfir á leikskólastigið.

Mikilvægt er að fjalla um starfskilyrði ófaglærðra leikskólastarfsmanna en þau eru mun verri en leikskólakennara og með öllu óásættanleg. Það er sárt að heyra dæmi um einn eða tvo starfsmenn að annast alltof mörg börn og finnast þeir aldrei ná að sinna þörfum þeirra svo vel sé. Þetta er verulega streituvaldandi fyrir bæði starfsfólk og börn.

Samninganefnd Félags leikskólakennara mun ræða fjármögnun styttingu vinnuvikunnar í næstu kjarasamningum og hafa útbúið reiknivél til að meta kostnað sveitafélaga af styttri dvalartíma barna en sparnaður er gríðarlegur og kostirnir ótvíræðir. Tilgangurinn með styttingu vinnuvikunnar er fyrst og fremst svo að börnin njóti góðs af en það gerist bara ef samfélagið allt er meðvitað um kosti þess og allir taki þátt.

Leikskólinn er menntastofnun – við þurfum fleiri úrræði

Hlutverk leikskólanna sem menntastofnun er mikilvæg sem og að virðing sé borin fyrir starfinu. Mikilvægt er að aðgreina faglegt starf leikskólanna frá gæslu og átta sig á því að leikskólinn á að vera á sama stalli og aðrar menntastofnanir. Þetta myndi án efa skila sér í bættum starfskjörum leikskólakennara og minnka brottfall til annarra skólastiga þar sem bjóðast lengri sumarfrí, jólafrí, páskafrí og styttri virkur umönnunartími með börnum.

Atvinnulífið, í samvinnu við sveita- og bæjarstjórnir, þarf því að ræða um annarskonar úrræði til að leysa vanda þeirra sem t.d. vinna vaktavinnu, þar sem lögð er áhersla á gæslu og umönnun barna utan hefðbundins skólatíma þar sem ekki væri gerð sama krafa um menntaða leikskólakennara. Skekkjan liggur í því að samfélagið leggur áherslu á að veita atvinnulífinu þjónustu á meðan leikskólasamfélagið leggur áherslu á að starfa eftir aðalnámskrá og sinna menntun og tilfinningalegum þörfum barna. Hin hræðilega staðreynd er þó sú að það er nánast ekkert svigrúm til þess vegna skorts á fjármunum.

Hvað gerist ef ekkert er að gert?

Ef við vinnum ekki saman að því að leysa vanda leikskólanna þá munum við að lokum neyðast til að horfast í augu við að börn verði oftar send heim og deildum lokað vegna manneklu. Þetta hefur nú þegar sett svip sinn á samfélagið og mun aðeins fara versnandi ef ekkert verður að gert. Eins og staðan er í dag er ekki hægt að starfa eins og kveðið er á um í aðalnámsskrá leikskóla því kerfið er sprungið og ekki er hægt að fjölga börnum og taka á móti yngri aldurshópum.

Tilgangurinn með þessari grein er ekki að auka á foreldrasamviskubit heldur að vekja athygli á skilyrðum leikskólanna og fá fleiri foreldra og aðra hagsmunaaðila með okkur í lið til að þrýsta á stjórnvöld um úrbætur og endurskoðun á leikskólastiginu. Börnin eru okkar allra og við viljum öll það sem er þeim fyrir bestu.

Heimildir:

Anna Magnea Hreinsdóttir. (2019). Styrkleikar leikskólastigsins á Íslandi: Vangaveltur um skýrslu Eurydice fyrir árið 2019. https://skolathraedir.is/2019/09/10/styrkleikar-leikskolastigsins-a-islandi-vangaveltur-um-skyrslu-eurydice-fyrir-arid-2019/?print=pdf

Arna H. Jónsdóttir, Bryndís Garðarsdóttir og Jóhanna Einarsdóttir. (2013). Leikskólabyrjun og lengd dvalartíma: Sjónarmið leikskólakennara og leiðbeinenda. Netla – Veftímarit um uppeldi og menntun: Sérrit 2013 – Rannsóknir og skólastarf. Menntavísindasvið Háskóla Íslands. http://netla.hi.is/serrit/2013/rannsoknir_og_skolastarf/001.pdf

Hagstofa Íslands. (2021). Börn í leikskólum eftir kyni, aldri, landsvæðum og lengd viðveru 1998-2020. https://px.hagstofa.is/pxis/pxweb/is/Samfelag/Samfelag__skolamal__1_leikskolastig__0_lsNemendur/SKO01102.px