Alda Pálsdóttir, formaður
Alda dvelur á Ítalíu um þessar mundir ásamt manni og dóttur á öðru aldursári þar sem þau njóta náttúrunnar, samveru hvors annars og æfa sig í hæglæti. Hún hefur mikla ánægju af góðum mat og ýmiskonar iðkun sem eflir andann. Alda er menntuð sem iðjuþjálfi og jógakennari. Hún hefur mest starfað á barna- og geðsviði. Á þeim tíma fóru forvarnir að vera henni hugleiknar og eftir að hún eignaðist stelpuna sína fann hún þörf fyrir opið úrræði sem styður við fjölskyldur fyrstu árin. Ásamt góðu fólki vinnur hún að því að koma Þorpinu – tengslasetri á legg en í þeirri vinnu hefur hún rætt við mikið af fjölskyldum og fagaðilum sem öll töluðu um skort á stuðningi og samfélagslegrar viðurkenningar á að hlúa að börnum fyrstu árin og það var kveikjan af þessu hagsmunafélagi. Að skapa vettvang þar sem hægt væri að virkja allan kraftinn sem býr í fjöldanum því foreldrar barna fyrstu fimm árin eru ekki endilega háværasti hópur samfélagsins.
Árni Kristjánsson, varaformaður
Árni er giftur Hörpu Fönn Sigurjónsdóttur og saman eiga þau Ylfing 3ja ára og Vordísi sem er 9 mánaða gömul. Árni er leikstjóri og leiklistarkennari. Hann hefur kennt leiklist í ótal skólum og á flestum skólastigum. Þau Harpa eru listrænir stjórnendur leikhópsins Lakehouse. Árni er RIE foreldri og Yoga Nidra kennari. Hann stofnaði síðuna ‘Yoga Nidra heima’ í haust og gerði hugleiðslur fyrir börn og fjölskyldur í aðdraganda jólanna. Árni og Harpa verja öllum frístundum úti í náttúrunni. Þau eiga landspildu í Borgarfirðinum þar sem þau rækta grænmeti og eru að byggja upp. Þeirra hugmynd um datekvöld er að hlusta á uppeldishlaðvörp og púsla.
Ólafur Grétar Gunnarsson, meðstjórnandi
Ólafur Grétar á dóttur, son og sonarson. Hann lauk undirstöðunámi í sálfræðilegri ráðgjöf í London árið 1999 og hefur verið með annan fótinn í endurmenntun tengdri velferð fjölskyldna síðan. Á námsárum í London kynntist hann starfi framsækins leikskóla og sótti foreldranámskeið fyrir foreldra leikskólabarna. Namskeiðið og leiðbeinendastarfið opnaði augu hans fyrir því að vera vel undir foreldrahlutverkið búinn. Í náminu vaknaði löngun til að geta miðlað fræðslu og reynslu til feðra. Á námskeiðum sem hann hélt fyrir foreldra leikskólabarna áttaði hann sig á hárri skilnaðatíðni foreldra fyrstu þrjú árin. Það leiddi að sér fræðslu í skólakerfinu um umönnun ungbarna og fræðslu fyrir verðandi foreldra. Ólafur sækist eftir að vera með fólki sem vinnur að aukninni velferð barna og er þakkátur fyrir að vera þátttakandi í mikilvægu starfi Fyrstu fimm.
Bjarney Rún Haraldsdóttir, meðstjórnandi
Bjarney Rún Haraldsdóttir býr á Akureyri ásamt sambýlismanni sínum Rúnari Má Þráinssyni og stjúpdóttur sinni Margréti Láru Rúnarsdóttur og er að ljúka námi í sálfræðivið Háskólann á Akureyri. Hún hefur mikla reynslu af starfi með börnum og unglingum og eru málefni barna og þar af leiðandi barnafjölskyldna henni afar hugleikin. Hún hefur undanfarin ár í sálfræðináminu haft mikinn áhuga tengslamyndun og áhrifum fyrstu fimm áranna í lífi hvers einstaklings á heilaþroska og þá sérstaklega í tengslum við geðheilsu á fullorðinsárum, snemmtæka íhlutun og forvarnir. Þegar hún er ekki að kafa í þau málefni finnst henni allra skemmtilegast að fara á gönguskíði eða í fjallgöngur með fjölskyldunni sinni. Í stjórn Fyrstu fimm vill hún beita sér fyrir því að tala máli barna, út frá þeirra þörfum og sjónarmiðum.
Matthías Ólafsson, gjaldkeri
Matthías er tæplega þrítugur fjölskyldufaðir úr Mosfellsbænum. Hann er lærður stjórnmála og rússneskufræðingur og starfar í metanólgeiranum en í frístundum unir hann sér með hinni síglöðu 19 mánaða Nadíu, sem á hug hans og hjarta. Því deilir hún þó með æskuástinni hans, henni Katerynu en þau hófu búskap á sautjánda aldursári. Í frístundum sinnir Matthías tungumála áhuga sínum, stundar tölvuleikjaspil eða les RIE-bækur. Hans markmið með stjórnarsetu í Fyrstu fimm er að berjast fyrir samfélagslegum breytingum á gildismati í þágu aukinnar þátttöku feðra í ummönnun ungra barna sinn, þeim sjálfum og samfélaginu öllu til hagsbóta.
Anna Mjöll Guðmundsdóttir, ritari
Anna Mjöll er móðir Kötlu 3. ára og gift Bjarka Kaldalóns Friis. Hún er aðjúnkt í land- og ferðamálafræði við Háskóla Íslands og býr á Seltjarnarnesi. Hún er Hafnfirðingur en hefur búið í Róm í 5 ár, styttri tíma í Kaupmannahöfn og Dublin og nýverið í 4 ár á Svalbarða. Allt þetta flakk hefur kennt henni að meta Ísland en einnig það sem önnur samfélög hafa fram að færa t.d. hægari lífsstíl og fjölskyldu- og barnvænar áherslur. Anna Mjöll hefur brennandi áhuga á uppeldismálum og velferð barna og þrátt fyrir mörg og spennandi ævintýri þá er Katla það allra stærsta og besta. Helstu áhugamálin eru jóga, núvitund/hugleiðsla, lestur uppeldisbóka og að eyða sem mestum tíma með fjölskyldunni.
Uppruninn
Stofnun Fyrstu fimm kemur til við undirbúningsvinnu Þorpsins – tengslaseturs sem er úrræði fyrir fjölskyldur með börn fyrstu fimm árin. Þá kom bersýnilega í ljós hjá foreldrum og fagaðilum að samfélagið styður ekki nægilega vel við þarfir fjölskyldna sem vilja forgangsraða tengslum og þannig stuðla að aukinni velferð barna sinna.
Fjölbreyttum hóp einstaklinga úr ólíkum áttum, með sterkar skoðanir á málefninu, fannst þeir ekki hafa vettvang til að láta raddir sínar heyrast og stofnuðu því þetta félag en fyrsti fundurinn var haldinn í byrjun nóvember árið 2020, þar sem grunnurinn að stefnu félagsins var lagður.
Nánari upplýsingar
Fæðingarorlof hefjist á 36. viku meðgöngu:
FYRSTU FIMM tekur undir með félagi íslenskra fæðingarlækna.
Mikið álag er á konur á seinni hluta meðgöngu, jafnvel þær sem eru í eðlilegri meðgöngu án sjúkdóma eða fylgikvilla, en algengt er að þær leiti til lækna og mæðraverndar vegna algengra fylgikvilla meðgöngunnar til að fá veikindavottorð. Í núverandi lögum eru ákvæði um að konur geti hafið fæðingarorlof fyrir fæðingu en með skertum fæðingarorlofsrétti eftir fæðingu en það er reynsla fagfólks í mæðravernd að konur nýti ekki rétt sinn vegna skerðingarinnar. Þetta veldur umtalsverðu álagi á lækna og ljósmæður.
Í Noregi og Danmörku eru ákvæði í lögum að konur hefji fæðingarorlof á 36 viku meðgöngu án skerðingar eftir fæðingu. Við teljum að íslenskar konur eigi, ekki síður en kynsystur þeirra á norðurlöndum, að hafa þennan rétt. Þess má geta að ákveðin sveitarfélög hér á landi (sbr. Hveragerði) hafa nú þegar hafið þessa vegferð og því er þetta ekki óþekkt hér á landi.
Ójafnvægi milli vinnu og fjölskyldulífs
Atvinnulífið vill ráða til sín ungt og hæfileikaríkt fólk en fyrstu starfsárin á vinnumarkaði eru oft talin gjöfulust. Ungt fólk er oft á tíðum bæði að stíga sín fyrstu skref á vinnumarkaði og á sama tíma að stofna fjölskyldu en þessu fylgir óhjákvæmilega mikið álag og streita. Niðurstöður rannsókna, sem birtust í Journal of Occupational Health Psychology, styðja þetta en fólk með ung börn eru jafnan óánægðari í vinnunni vegna mikils álags. Í ýmsum mikilvægum atvinnugreinum á Íslandi er ungt fólk á vinnumarkaði takmörkuð auðlind og því mikilvægt að styrkja unga foreldra svo þeir upplifi aukið jafnvægi á milli vinnu og fjölskyldulífs.
Vinnuveitendur gætu aukið vellíðan og tryggð starfsmanna sinna með því að bæta þeim upp launamissi í fæðingarorlofi að hluta eða öllu leyti sem hluta af uppsöfnunum fríðindum t.d. í þremur stigum eftir 2, 4 og 6 ár í farsælu starfi.
Álag á parasambönd foreldra með ung börn:
Rannsóknir, m.a. Johns Gottmans, sýna að fæðing barns reynir umtalsvert á parasambönd, sérstaklega fyrstu þrjú árin. Allt að 70% foreldra upplifa minni ánægju í parsambandinu á þessum tíma og ágreiningur allt að áttfaldast en sterkar vísbendingar eru um að hér á landi ríki ákveðin þöggun um þá streitu sem barneignir hafa á parasambönd. Fyrstu fimm leggja til að verðandi foreldrum bjóðist jafnréttisfræðsla (á sömu forsendum og önnur starfstengd fræðsla) til að draga úr óánægju og ágreiningi foreldra, börnum þeirra til hagsbóta. Einnig getur markviss stuðningur og fræðsla fyrir unga foreldra sbr. SES Samvinna eftir skilnað – barnanna vegna, komið í veg fyrir langtíma áhrif skilnaðarátaka á börn en sýnt hefur verið fram á að verkefnið dragi verulega úr geðrænum erfiðleikum og veikindum þátttakenda (COWI, 2020).
Bæta þarf stöðu barnafjölskyldna á Íslandi og fyrirbyggja skaða sem þessi hópur verður fyrir vegna álags og streitu. Ákall Fyrstu fimm er liður í að vinna að framförum á þessu sviði hér á landi.