FYRSTU FIMM vilja nýta hina miklu þátttöku feðra í notkun fæðingarorlofs enn frekar. Íslenskir feður nýta um 30% af fæðingarorlofi sem tekið er, mæður hin 70%.
Þátttaka íslenskra feðra í töku fæðingarorlofs er á pari við sænska feður. Það er eftirtektarvert í ljósi þess að fæðingarorlof feðra á 25 ára lengri sögu í Svíþjóð en á Íslandi. Á öðrum Norðurlöndum nýta feður um 10% af orlofinu. Í þeim 253 umsögnum um drög að frumvarpi nýrra fæðingarorlofslaga kemur fram að foreldrar og fagfólk hafa miklar áhyggjur af því að börn fái að meðaltali ekki inngöngu í leikskóla fyrr en um 18-20 mánaða aldur. Streita og kvíði sem þessar aðstæður valda barnshafandi pörum og ungbarnafjölskyldum verður að taka enda.
A: Lagt er til að foreldrar sem fullnýta fæðingarorlof sitt ásamt því að standast ákveðnar kröfur um foreldrafærni bjóðist að annast barnið sjálf í auknum mæli til tveggja eða þriggja ára aldurs. Til þess að það sé val fyrir sem flesta þarf að veita foreldrum hluta af því fjármagni sem Reykjavíkurborg ver til niðurgreiðslu leikskóla. Val væri um að annað hvort fengju foreldrar 60% af fjármagninu og myndu annast barn sitt sjálf að fullu til 2ja- 3ja ára aldurs eða ættu kost á 50% leikskólavist og fengju 30% af því fjármagni sem Reykjavíkurborg ver til niðurgreiðslu leikskóla. Með þessu vali myndi um leið draga úr álagi á aðþrengt leikskólastarf.
B: Sex klukkustunda gjaldfrjáls leikskólavist á dag verði í boði fyrir alla foreldra. Velji foreldrar lengri vistunartíma greiða þeir þann kostnað sem því fylgir að fullu. Sem dæmi þá hækkar vistunarkostnaður fyrir átta klukkustundir hugsanlega um allt að 100%. Foreldrar á launum undir lágmarks framfærslu og börn einstæðra foreldra fá átta klukkustundir sér að kostnaðarlausu.
Með þessum leiðum má fyrirbyggja alvarlegar afleiðingar streitu á meðgöngu og fyrstu ára í lífi barna og jafnframt auka þátt karla/feðra í umönnun ungra barna. Í þeim felst einnig tækifæri til að reyna nýjar leiðir þar sem mennta- og velferðarkerfið stendur ekki undir því álagi sem núverandi ástand veldur.
Aðkallandi þörf er á breytingum í leikskólastarfi hjá Reykjavíkurborg. FYRSTU FIMM óska eftir liðsauka frá Reykjavíkurborg í að vinna að lengingu fæðingarorlofsins í 18 mánuði.