Fjölskylduvernd, feður og frumtengsl. Reynslusaga af sjálfboða- og hugsjónastarfi

Greinin birtist í 49. tölublaði tímarits Geðverndarfélagsins árið 2020.

Sjá greinina í heild sinni hér: https://gedvernd.is/wp-content/uploads/2021/12/Gedvernd_1_49_2020.pdf

Ólafur Grétar Gunnarsson segir frá eigin reynslu af sjálfboða- og hugsjónastarfi í tengslum við foreldra- og feðrafræðslu, í fræðslugrein sinni um fjölskylduvernd, feður og frumtengsl. Hann lýsir áhugaverðu ferðalagi þar sem fjölskyldan er í fyrirrúmi. Það rímar vel við áherslur Geðverndarfélags Íslands um aukna fræðslu fyrir foreldra og fagfólk með áherslu á að styrkja tengslamyndun ungbarna og barna við foreldra sína með það að markmiði að styrkja undirstöðu geðheilbrigðis fjölskyldna.

Norræna ráðherranefndin gaf út nýja skýrslu í júní 2021 um „Fyrstu 1000 dagana á Norðurlöndum“ sem tekur út meðferðarúrræði til að styrkja tengsl milli foreldra og barna – sérstaklega þá í tengslum við barnshafandi fjölskyldur og fyrstu æviárin. Um er að ræða vandaða gagnreynda úttekt þar sem bæði Solihull aðferðarfræðin og Tölum um börnin forvarnarstuðningurinn, sem við þekkjum á Íslandi, eru meðal þeirra úrræða sem fjallað er um og þau metin. Sjá skýrslu í heild sinni hér: https://pub.norden.org/nord2021-037/nord2021-037.pdf

Í greininni er fjallað um fjölskylduvernd og gildi aðkomu beggja foreldra að tengslamyndun, umönnun og umsjá ungra barna ásamt jafnari ábyrgð kynjanna. Athygli er beint að sjálfboðnu starfi í formi forvarnarverkefna og annars framlags þriðja geirans. Þá er lögð áhersla á ábyrgð stjórnvalda í að fylgja eftir settum lögum með áætlun um framkvæmd og eftirfylgd.

Með lagabreytingum um fæðingarorlof með sjálfstæðum rétti feðra hefur vaxandi fjöldi tekið feðraorlof og virkari þátt í uppeldinu. Þetta kemur m.a. fram í auknum áhuga feðra á samvistum og jafnari ábyrgð á börnum sínum eftir skilnað. Jafnframt sýna rannsóknir að feður eru nú jafn mikilvægir fyrir geðheilsu og persónustyrk barna og mæður. Í umræðu um foreldrahlutverk þarf að huga bæði að valdi og ábyrgð. Sú ábyrgð felur í sér að tryggja foreldrum, óháð kyni, fræðslu svo báðir hafi betri forsendur til að standa undir kröfum og áhrifavaldi foreldrahlutverksins.

Með skipulegri geðheilbrigðisþjónustu og fræðslu um foreldrahlutverk fyrir feður má draga úr einhliða ábyrgð, þunga umönnunar og uppeldis á herðum mæðra. Framlag þriðja geirans hefur beinst að fræðslu í heilbrigðis- og skólakerfi um foreldrahlutverkið og frumforvarnarfræðslu fyrir barnshafandi pör.

Rannsóknir á gagnsemi hafa sýnt að hjá þátttakendum dregur úr ágreiningi, óvild og streitu í parasambandinu sem m.a. auðveldar að takast á við samræmingu vinnu og heimils. Þessir feður sögðust taka meiri þátt í foreldrahlutverkinu og fyndu meiri ánægju og jákvæðara mat á framlagi sínu sem foreldrar. Færð eru rök fyrir því að ávinning samfélagsins af lögum sem taka gildi árið 2021 um lengingu fæðingarorlofs og styttri vinnuviku, þurfi að nýta enn frekar með aukinni fræðslu fyrir foreldra.

Í ljósi mikilvægis þess að fyrirbyggja streitu á fyrstu 1000 dögum barnsins á heimilum og í leikskólum þurfa sveitarfélög að móta stefnu um framlag og þátttöku. Einnig er þörf á liðstyrk frá sérfræðingum innan og utan þriðja geirans.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Fill out this field
Fill out this field
Please enter a valid email address.
You need to agree with the terms to proceed

Menu