Haustkveðja fráfarandi formanns

Nú er félagið að skríða úr sumarfríi eftir annasaman vetur. Mig langar að nýta tækifærið til að láta vita að ég hef stigið til hliðar sem formaður Fyrstu fimm.

Fyrstu fimm er ungt félag en nú þegar hefur margt áunnist. Félagið var formlega stofnað í janúar 2021 í kjölfar rannsóknarvinnu sem átti sér stað við undirbúning að stofnun Þorpsins tengslaseturs. Félagið hefur meðal annars látið að sér kveða á samfélagsmiðlum og haldið reglulega umræðufundi en í umræðuhóp Fyrstu fimm  á facebook eru nú rúmlega 1.300 félagar. Snemma í júní stóð Fyrstu fimm fyrir málþingi um mikilvægi tengslamyndunar foreldra við börn sín á fyrstu æviárunum. Málþingið var haldið á Kaffi Dal og meðal mælenda voru Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, Sæunn Kjartansdóttir hjúkrunarfræðingur og Sverrir Nordal faðir og rithöfundur.

Þrátt fyrir að láta nú af störfum sem formaður Fyrstu fimm brenn ég enn fyrir því að umönnunarstörf innan og utan heimila séu metin að verðleikum. Þannig berum við hag barna og samfélagsins alls fyrir brjósti. Það hefur verið hvatning og innblástur að hlýða á foreldra, leikskólastarfsfólk og aðra umönnunaraðila um hvað vel er gert og hvað megi betur fara. Þeirra upplifanir sem og besta mögulega þekking fagaðila á ýmsum sviðum hefur svo mótað stefnu félagsins.

Mikilvægi fyrstu þúsund daganna

Við vitum að fyrstu þúsund dagarnir eru úrslita dagar í lífi einstaklinga en fjármunum er ekki enn varið í samræmi við það. Við viljum vitundarvakningu um raunverulegt mikilvægi fyrstu þúsund dagana og til þess að af henni verði þurfa stjórnvöld að vera samstíga og tala fyrir henni. Nú er stutt í kosningar og ég vona sannarlega að hagsmunir barna og fjölskyldna verði raunverulega ofar á baugi en verið hefur.

Staðan á Íslandi er alvarleg. Börn eru með lengsta vistunartíma í leikskólum í Evrópu, foreldrar vinna lengstu dagana af Norðurlandaþjóðum og líðan ungmenna er ábótavant samkvæmt skýrslu UNICEF 2020. Við getum gert svo miklu betur án þess að það bitni á árangri okkar á sviði jafnréttismála. Nú tel ég kominn tíma til að auka val og stuðning til þeirra fjölskyldna sem geta og vilja annast börn sín í auknum mæli fyrstu tvö árin. Með þeim áherslum heldur Fyrstu fimm áfram inn í haustið

Það var draumur minn að sjá þetta hagsmunafélag verða til, vaxa og dafna og nú er því markmiði náð. Ég segi af mér sem formaður til að einbeita mér að hinu hugarfóstri mínu, Þorpinu tengslasetri, þar sem ég mun leitast við að styðja fjölskyldur á sínum vegferðum.

Ég skil formennsku Fyrstu fimm eftir í öruggum höndum Matthíasar Ólafssonar sem leiðir næsta kafla félagsins. Matthías hefur verið meðstjórnandi frá stofnun Fyrstu fimm og þekkir hvern krók og kima í starfinu. Hann hefur  auk þess verið sérlega virkur við að skrifa og koma sinni upplifun af föðurhlutverkinu á framfæri.

Ég er þakklát fyrir að hafa fengið tækifæri til að standa að stofnun Fyrstu fimm og auðmjúk að finna hversu mikil áhrif hægt er að hafa þegar við öll leggjumst á eitt.

Lengi lifi friðsæla tengslabyltingin

Alda Pálsdóttir

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Fill out this field
Fill out this field
Please enter a valid email address.
You need to agree with the terms to proceed

Menu