Ítarefni

Greinar

Opið bréf til Ríkisstjórnar Íslands um fjölskyldu- og barnvænna samfélag

0
                                                                                                                      Reykjavík 20.12.2021 Opið bréf til Ríkisstjórnar Íslands Hæstvirt ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur, Í tilefni þess að ný ríkisstjórn skilgreinir…
Greinar

Næsta skref jafnréttis

0
Öfgafull daggæsla – forsenda jafnréttis? „Konur munu hafa náð fullu jafnrétti þegar karlar deila með þeim ábyrgð á því að…
Greinar

Gott atlæti er gjöfum betra

0
Fyrstu fimm, hagsmunafélag foreldra og fagaðila um fjölskyldu- og barnvænna Ísland, segja forsendu þess að bæta óásættanlega stöðu barna á…

LENGI BÝR AÐ FYRSTU GERÐ

Áhrif áfalla, streitu og erfiðrar reynslu í æsku

HÖFUNDUR: SÓLRÚN ERLINGSDÓTTIR OG ANNA MARÍA JÓNSDÓTTIR

Inngangur

Lengi býr að fyrstu gerð er orðatiltæki sem margir þekkja. Rannsóknir síðustu áratuga á afleiðingum áfalla og erfiðrar reynslu í æsku sýna að það er mikill sannleikur í þessum orðum. Við hvert áfall eða erfiða reynslu fyrir 18 ára aldur safnast upp álag og streita hjá barni sem getur haft neikvæð áhrif á heilaþroska þess, hormóna-, streitu- og ónæmiskerfi (Anda o.fl., 2006; Kaufman, Plotsky, Nemeroff og Charney, 2000). Ef ekkert er að gert geta áhrifin varað fram á fullorðinsár og valdið alvarlegum andlegum og líkamlegum heilsufarsvanda á fullorðinsárum og jafnvel stytt ævina (Danese og McEwen, 2012; Felitti og Anda, 2010).

Streita

Við röskun á líkamsferlum okkar leitast líkaminn við að finna líffræðilegt jafnvægi á ný (e. homeostasis) (McEwen, 1998). Líkaminn bregst við álagi með  því að setja af stað ósjálfráð ferli í tauga-, ónæmis- og innkirtlakerfi okkar til þess að ná jafnvægi á ný (e. allostasis). Viðbrögð líkamans hjálpa honum að bregðast við tímabundinni streitu eða ójafnvægi vegna ytri eða innri aðstæðna, t.d. kulda, hungri eða yfirvofandi hættu. Þegar álagið varir stutt virka ferlin á skilvirkan hátt og gera líkamanum kleift að takast á við áreiti og álag á áhrifaríkan hátt. Aðlögunarhæfni og styrkur eykst tímabundið og aðstoðar við að takast á við erfiðleika. Jákvæðu áhrifin dvína undir miklu eða síendurteknu álagi og afleiðingarnar verða þess í stað skaðlegar og óhagkvæmar. Álagið á tauga-, ónæmis- og innkirtlakerfi eykst (e. allostatic load) og sífellt verður erfiðara fyrir líkamann að ná jafnvægi á ný (McEwen, 1998).

Dæmi um viðbrögð líkamans þegar yfirvofandi hætta steðjar að er virkjun streitukerfisins sem losar streituhormón út í blóðið, meðal annars heiladingulshormónið ACHT (Adrenocorticotropic hormone) sem örvar nýrnahetturnar og  ýmis nýrnahettuhormón s.s. Cortisol, Adrenalín og Noradrenalín. Streituhormón hækka blóðþrýsing og hafa einnig ýmis önnur víðtæk áhrif til að auka hugræna og líkamlega getu sem gerir líkamanum kleift að bregðast hratt við aðstæðum. Þegar streita verður óhóflega mikil eða langvinn getur kerfið orðið ofvirkt eða ofurnæmt og valdið háþrýstingi sem eykur hættu á hjarta- og æðasjúkdómum (McEwen, 1998). Viðbrögð líkamans við streitu, sem undir eðlilegum kringumstæðum gera okkur kleift að lifa af og aðlagast krefjandi aðstæðum, geta valdið okkur skaða þegar þau eru virkjuð síendurtekið og í of langan tíma.

Streita er óumflýjanlegur hluti lífsins og hjá  börnum hafa verið skilgreindar þrjár ólíkar gerðir hennar, jákvæð, bærileg og skaðleg (Shonkoff, Boyce og McEwen, 2009). Jákvæð streita er þegar álag varir stutt, eins og þegar barn hittir nýtt fólk, er aðskilið frá móður um stund eða verður óöruggt í skamman tíma (Middlebrooks og Audage, 2008).Við slíkar aðstæður eykst hjartslátturinn og það verða breytingar í líkama barnsins á borð við aukna framleiðslu streituhormóna og blóðþrýstingur hækkar (Albers, Marianne Riksen‐Walraven, Sweep og Weerth, 2008; Hanson og Chen, 2010; Shonkoff o.fl., 2009). Með stuðningi fullorðinna sem barnið treystir lærir barnið að komast yfir streituviðbrögðin, róast og aðlagast aðstæðum (Albers o.fl., 2008; Compas, 1987; Middlebrooks og Audage, 2008). Með reynslunni þroskast barnið og lærir að bregðast við nýjum aðstæðum án þess að það verði yfirþyrmandi og þróar með sér andlega og líkamlega heilbrigðar leiðir til að bregðast við streitu (Compas, 1987). Ung börn geta ekki róað sig sjálf og þurfa aðstoð til að læra það. Þau þroskast því í samspili við umönnunaraðila (Bernier, Carlson og Whipple, 2010).

Það getur valdið barni mikilli streitu þegar það verður fyrir áfalli eins og að verða fyrir slysi, missa ástvin eða að foreldrar skilji. Álagið sem slíkir atburðir kunna að skapa geta orðið bærilegir fyrir barnið ef það fær nauðsynlegan stuðning, s.s. samúð, skilning og umhyggju frá fullorðnum og ef steituvaldandi aðstæður eru tímabundnar (Albers o.fl., 2008; Middlebrooks og Audage, 2008; Shonkoff o.fl., 2009). Þau skilyrði geta komið í veg fyrir skaðleg áhrif sem atburðirnir kunna að hafa og ýta þess í stað undir jákvæð bjargráð hjá barninu (Shonkoff o.fl., 2009).

Jákvæð áhrif streitu hverfa þegar hún verður það mikil að barnið getur ekki lengur ráðið við afleiðingar hennar og reynslan verður yfirþyrmandi fyrir barnið. Ef barn lendir í áfalli eða býr við erfiðar aðstæður vikum, mánuðum eða jafnvel árum saman án nauðsynlegs stuðnings, getur það leitt til streitu með skaðlegum afleiðingum (Middlebrooks og Audage, 2008). Með skaðlegri streitu (e. toxic stress) er átt við mikla, endurtekna og langavarandi virkni í streitukerfi líkamans, án verndandi áhrifa félagslegs stuðnings (Shonkoff o.fl., 2009). Dæmi um slíka atburði eru ef barn býr við endurtekið andlegt eða líkamlegt ofbeldi, vanrækslu eða ofbeldi innan fjölskyldunnar í lengri tíma (Shonkoff o.fl., 2009). Það getur valdið mikilli angist hjá barni þegar að einstaklingar sem barnið þarf að treysta á og ættu að vera uppspretta umhyggju og öryggis, eru þess í stað uppspretta ótta (Hesse og Main, 2006; Madigan, Voci og Benoit, 2011). Slík reynsla getur skaðað viðkvæman heila barns í mótun og getur haft neikvæð áhrif bæði á uppbyggingu og starfsemi heilans (De Bellis, 2002), ásamt starfsemi tauga-, ónæmis- og hormónakerfisins (Chrousos, 2009; Fagundes, Glaser og Kiecolt-Glaser, 2013; Segerstrom og Miller, 2004). Ef börn búa við aðstæður þar sem streitukerfi þeirra er sífellt virkt, getur það haft í för með sér langvinn geðræn- og félagsleg vandamál á fullorðinsárum á borð við þunglyndi, kvíða, áfengis- og fíknivanda, ásamt öðrum heilsufarsvandamálum s.s. sykursýki og hjarta- og æðasjúkdómum  (Chrousos, 2009; De Bellis, 2002; McEwen, 2008).

Framþróun í taugavísindum hefur gert mönnum kleift að skilja betur hvernig heilinn og taugabrautir hans verða til og hvernig samspil umhverfis og erfða hefur áhrif á þroska heilans (Shonkoff o.fl., 2012). Heili ungbarna er sérstaklega mótanlegur og geta streituhormón í miklu magni á viðkvæmum tímabilum í þroska heilans dregið úr tengingu taugafruma og vexti heilans með því að bæla nýmyndun taugafrumna (McEwen, 2008; Shonkoff o.fl., 2012, 2009). Streituhormónin geta einnig valdið bólgusvörun í líkamanum og bælt ónæmiskerfið (Fagundes o.fl., 2013). Það getur gert barnið viðkvæmt fyrir sýkingum og langvinnum heilsufarsvandamálum. Langvarandi hækkun á streituhormónum getur einnig valdið breytingum í byggingu taugabrauta í þeim heilastöðvum sem hafa með nám og minni að gera og getur það haft langvinn áhrif á hugræna getu á fullorðinsárum (McEwen, 2008). Einnig geta orðið langvinn áhrif á tilfinningastjórnun og aukin svörun við áföllum og streitu síðar á ævinni sem gerir fólk útsettara fyrir því að þróa með sér áfallastreituröskun við endurtekin áföll (e. latent vulnerability) (De Bellis, 2002; McCrory og Viding, 2015; McEwen, 2008).

Adverse Childhood Experiences (ACE) rannsóknin

Ein stærsta rannsókn sem gerð hefur verið á tengslum áfalla og erfiðrar reynslu í bernsku og sjúkdóma á fullorðinsárum er ACE rannsóknin (Adverse Childhood Experiences; Felitti o.fl., 1998). Rannsóknin var framkvæmd í Bandaríkjunum á árunum 1995 til 1997 og var samvinnuverkefni milli miðstöðvar sjúkdóma og forvarna í Bandaríkjunum (Center for Disease Control and Prevention; CDC) og heilsumiðstöðvar Kaiser Permanente (Kaiser Permanente Health Appraisal Clinic). Þátttakendur voru 17.000 einstaklingar sem skráðir voru hjá heilsumiðstöðinni og höfðu gengist undir heilsufarsmat. Þeir voru fengnir til að fylla út ACE spurningalistann sem inniheldur spurningar um ofbeldi og fjölskylduvanda í æsku. Heilsufar og lífshættir þátttakenda var síðan skoðað í samhengi við ACE stig þeirra (Felitti o.fl., 1998). Í ACE spurningalistanum er spurt um 10 atriði sem tengjast fyrstu 18 árum lífsins. Spurt er hvort viðkomandi hafi orðið fyrir ofbeldi eða vanrækslu þ.e.a.s. tilfinningalegu-, líkamlegu- eða kynferðisofbeldi eða líkamlegri eða tilfinningalegri vanræsklu. Einnig er spurt um heimilisaðstæður, hvort móðir hafi orðið fyrir heimilisofbeldi, hvort einhver á heimilinu hafi verið með geð- eða fíknisjúkdóm, hvort foreldrar hafi skilið í lengri eða skemmri tíma eða fjölskyldumeðlimur setið í fangelsi eða gæsluvarðhaldi. Ef viðkomandi svarar spurningu játandi jafngildir það einu ACE stigi. Þegar heildar stig þátttakenda í ACE rannsókninni voru skoðuð kom í ljós að 2/3 þátttakenda höfðu orðið fyrir að minnsta kosti einni tegund af erfiðri reynslu í bernsku, þar af voru 12,5% sem höfðu orðið fyrir fjórum eða fleiri tegundum ofbeldis. Niðurstöður rannsóknarinnar leiddu í ljós að eftir því sem ACE skor þátttakenda hækkaði, því meira jukust líkurnar á hegðunar- og heilsufarsvanda á fullorðinsárum, s.s. áfengis- og tóbaksnotkun, fjölda bólfélaga, hreyfingarleysi, offitu, hjarta- og æðasjúkdómum, langvinnum lungnasjúkdómum, sjálfsofnæmissjúkdómum, krabbameini og ótímabærum dauða (Felitti o.fl., 1998).

ACE spurningalistinn hefur verið notaður í fjölda rannsókna til að skoða tengsl erfiðrar reynslu í bernsku og líkum á ýmsum heilsufars-, geð- og lífsstílsvanda síðar á ævinni (Brown o.fl., 2010; Brown, Thacker og Cohen, 2013; Ford o.fl., 2011; Holman o.fl., 2016; Metzler, Merrick, Klevens, Ports og Ford, 2017; Ports o.fl., 2019; Ports, Ford og Merrick, 2016; Strine o.fl., 2012). Niðurstöður rannsókna eru samhljóma og sýna að línulegt samband finnst á milli fjölda ACE stiga og alvarleika neikvæðra afleiðinga á lífsstíl og heilsufar. Áföll og erfið reynsla í æsku geta valdið gífurlegum kostnaði í heilbrigðis-, félags- og menntakerfinu í formi þjónustu við þessa einstaklinga (Shonkoff o.fl., 2012). Einnig felst kostnaður í því að þeir sem hafa upplifað áföll í bernsku eru ekki eins virkir þátttakendur í samfélaginu og því tapast mikill mannauður. Þar að auki getur slík reynsla valdið skertum lífsgæðum og þjáningu sem getur varað ævilangt. Mikilvægt er því að grípa inn í aðstæður þar sem börn búa við erfiðleika og álag sem allra fyrst. Það er aldrei of seint að grípa inn í og hægt er að bæta líðan og velferð alla ævi ef viðeigandi úrræði eru til staðar.

Mynd 1 sýnir þau keðjuverkandi áhrif sem áföll og erfið reynsla í æsku geta haft á líf einstaklingsins. Talið er að í upphafi eigi sér stað truflun á eðlilegum taugalífeðlisfræðilegum þroska meðal barna sem verða fyrir slíkri lífsreynslu. Það getur t.d. verið aukin eða bæld starfsemi streitukerfisins og truflun á uppbyggingu minnis- og tilfinningastöðva heilans (McCrory, De Brito og Viding, 2011; Shonkoff o.fl., 2009; Shonkoff og Richmond, 2009). Sýnt hefur verið fram á að taugalífeðlisfræðilegu breytingarnar valda skerðingu á andlegri, líffræðilegri og félagslegri hæfni. Skert hæfni getur síðan leitt til óheppilegra og skaðlegra lífsvenja, s.s. reykinga, áfengisdrykkju og andfélagslegrar hegðunar. Einnig geta aukist líkur á ýmsum langvinnum sjúkdómum svo sem krabbameini, hjarta-, æða-, lifrar- og lungnasjúkdómum sem geta leitt til ótímabærs dauða (Boullier og Blair, 2018).

Mynd 1. ACE Pyramídinn: www.cdc.gov/violenceprevention/acestudy/

Eftirfylgnirannsókn Brown o.fl. (2009) á upprunnalegu rannsókn Felitti o.fl. (1998) kannaði tengsl á milli ACE stiga þátttakenda og líkum á ótímabærum dauða fyrir 65 og 75 ára aldur. Niðurstöðurnar sýndu að þeir sem höfðu 6 eða fleiri ACE stig voru 1,7 sinnum líklegri til þess að deyja fyrir 65 ára aldur og 2,4 sinnum líklegri til þess að deyja fyrir 75 ára aldur, miðað við þá sem höfðu ekkert ACE stig. Þeir sem höfðu upplifað sex eða fleiri tegundir af ACE lifðu allt að 20 árum skemur en þeir sem höfðu ekki upplifað neitt af því sem spurt var um (Brown o.fl., 2009).

Algengi ACE upplifana hefur verið kannað meðal ólíkra úrtaka í ýmsum löndum (Bellis, Hughes, Leckenby, Perkins og Lowey, 2014; Crouch, Probst, Radcliff, Bennett og McKinney, 2019; Merrick, Ford, Ports og Guinn, 2018; Soares o.fl., 2016; Ye og Reyes-Salvail, 2014). Í bresku úrtaki 3.885 þátttakenda á aldrinum 18 til 69 ára höfðu 47% að minnsta kosti eitt ACE stig (Bellis o.fl., 2014) en meðal 3.951 brasilískra ungmenna voru 85% sem höfðu eitt eða fleiri ACE stig (Soares o.fl., 2016). Einnig má sjá breytileika í hver algengasta ACE upplifunin var eftir löndum þar sem algengasta upplifunin var skilnaður foreldra í bæði brasilíska (Soares o.fl., 2016) og breska úrtakinu (Bellis o.fl., 2014), en andlegt ofbeldi í bandarísku úrtaki (Merrick o.fl., 2018) og meðal þátttakenda frá Hawaii (Ye og Reyes-Salvail, 2014).

Áhrif áfalla í æsku á foreldrahlutverkið

Ungabörn eru algjörlega háð umönnunaraðilum sínum og rannsóknir sýna að það hefur mikil áhrif á þroskaferil og sjálfsmynd barnsins hversu næma og kærleikskríka umönnun það fær (Manning, 2018). Á þessu tímabili myndast vanabundin viðbrögð barnsins við ólíkum aðstæðum, t.d. hverju barnið býst við frá öðru fólki (Fivush, 2006). Reynsla barnsins á mikinn þátt í að móta kjarnaviðhorf þess til sjálfs sín og annarra sem geta varað alla ævi (Fivush, 2006; Waters og Waters, 2006). Góð gagnkvæm samskipti barns við umönnunaraðila eins og snerting, augnsamband, gagnkvæmt hjal og leikur eru grundvöllur öruggrar tengslamyndunar (Feldman, 2007; Kiser, Bates, Maslin og Bayles, 1986; MacLean o.fl., 2014) og stuðla að heilbrigðum félagslegum, taugafræðilegum og andlegum þroska (Fearon, Bakermans‐Kranenburg, IJzendoorn, Lapsley og Roisman, 2010; Groh o.fl., 2014; Sroufe, 2005). Umönnun barns krefst þess að sá sem annast það geti uppfyllt þarfir þess fyrir öryggi og umhyggju. Til þess að geta veitt barni þetta þarf gott andlegt og tilfinningalegt jafnvægi. Sá sem verður fyrir erfiðri reynslu í æsku, s.s. ofbeldi eða vanrækslu, getur þróað með sér varnarviðbrögð eins og að verða tilfinningalega fjarlægur. Slík bjargráð geta síðan haft óhagstæð áhrif á hæfni þeirra í foreldrahlutverkinu (Juul o.fl., 2016) t.d. með því að foreldrið bregðist ekki við kalli barnsins á athygli, umhyggju og huggun með þeirri nærgætni og skilningi sem er svo mikilvægur á fyrstu árum hvers barns (Iyengar, Kim, Martinez, Fonagy og Strathearn, 2014). Einnig geta kröfur barnsins um huggun og stanslausa umönnun orðið foreldri, sem ekki hefur unnið úr reynslu sinni, ofviða, t.d. með því að vekja upp erfiðar tilfinningar, s.s. reiði eða jafnvel hræðslu hjá foreldrinu (Hesse og Main, 2006; Iyengar o.fl., 2014; Schechter o.fl., 2004). Samskiptin við barnið geta því orðið foreldrunum erfið og valdið því að barnið missir af tækifærum til þess að eiga í þeim jákvæðu gagnkvæmu samskiptum sem eru svo mikilvæg fyrir heilbrigðan þroska og tengslamyndun (Iyengar o.fl., 2014).

Það getur valdið börnum uppnámi þegar foreldri er andlega og tilfinningalega fjarlægt eða svarar kalli þeirra á umönnun á neikvæðan hátt (Haley og Stansbury, 2003; Ziv IV, Aviezer, Gini, Sagi og Karie, 2000). Til lengdar getur slíkt viðmót valdið tengslavanda hjá barninu þar sem það lærir með síendurtekinni reynslu að foreldrinu er ekki treystandi fyrir tilfinningum þess og er ekki til staðar þegar barnið þarf á því að halda (Ziv IV o.fl., 2000). Rannsóknir hafa sýnt að tengslavandi getur haft neikvæðar afleiðingar í för með sér alla ævi s.s. hegðunar- og kvíðavandamál á skóla- og unglingsaldri (Bar-Haim, Dan, Eshel og Sagi-Schwartz, 2007; Fearon o.fl., 2010; Groh o.fl., 2017) og andleg veikindi á fullorðinsárum (Feeney, Alexander, Noller og Hohaush, 2003; Kafetsios og Sideridis, 2006; Malik, Wells og Wittkowski, 2015). Þannig getur millikynslóðaflutningur á áhrifum áfalla og erfiðrar reynslu frá foreldri til barns átt sér stað ef ekkert er að gert.

Berthelot o.fl. (2015) kannaði hvort reynsla af ofbeldi eða vanrækslu í æsku mæðra hefði áhrif á tengslamyndun barna þeirra við þær ef þær höfðu ekki unnið úr reynslu sinni. Mæðurnar, sem ekki höfðu unnið úr áfallinu og höfðu lítið innsæi í áhrifin sem reynsla þeirra hafði á bæði þær og samband þeirra við barnið, voru tæplega 3,5 sinnum líklegri til þess að eiga í vanda með tengslamyndun við eigið barn samanborið við þær sem höfðu gott innsæi í reynslu sína (Berthelot o.fl., 2015).

Juul o.fl. (2016) athuguðu tengsl áfalla í æsku mæðra, magn streituhormóns og gæði samskipta þeirra við börn sín. Þær mæður sem urðu fyrir áföllum í æsku sýndu minni streituviðbrögð þegar barn þeirra var í uppnámi. Það olli því að þær brugðust við af minni nærgætni og umhyggju en þær mæður sem ekki höfðu orðið fyrir áfalli í æsku.

Fyrstu 1000 dagarnir, og einum betur

Meðganga, fæðing og fyrstu árin eftir fæðingu barns er gífurlega mikilvægur tími vegna viðkvæms mótunarskeiðs og heilaþroska ungbarnsins (Bornstein og Lamb, 2002; Steinberg, Vandell og Bornstein, 2010). Frá getnaði og fyrstu tvö til þrjú árin verður gríðarlegur vöxtur á heila ungbarnsins með fjölgun heilafruma og myndun taugafrumutengsla (Steinberg o.fl., 2010). Fyrsta hálfa árið eftir fæðingu myndast 100.000 ný taugafrumutengsl á hverri sekúndu. Myndun nýrra taugatengsla nær hámarki um eins árs aldur og um tveggja ára aldur eru taugatengsl barna um tvöfalt fleiri en hjá fullorðnum (Steinberg o.fl., 2010). Tímabilið frá getnaði að tveggja ára aldri skiptir sköpum fyrir þroska skynjunar og mikilvæga eiginleika, s.s. sjón, heyrn, tilfinningastjórnun, málþroska og félagslega færni (Johnson, 2001; Steinberg o.fl., 2010). Ef foreldrar glíma við streitu, áföll, geðrænan eða tilfinningalegan vanda getur það haft neikvæð áhrif á hæfni þeirra til að lesa í merki ungbarnsins og svara því á viðeigandi hátt (Cox, Puckering, Pound og Mills, 1987). Börn foreldra sem glíma við þunglyndi og kvíða eru í aukinni hættu á að þróa með sér tengsla-, hegðunar- og athyglisvanda, námserfiðleika og skerta félaglega hæfni og eru líklegri til að verða þunglynd og kvíðin (Cox o.fl., 1987; Goodman og Brogan, 1993; Manning og Gregoire, 2006; Murray o.fl., 2011; Pawlby o.fl., 2001; Tharner o.fl., 2012).

Það er heppilegt hve auðmótanlegur mannsheilinn er á fyrstu æviárunum, því það gerir börnum kleift að aðlagast því umhverfi, tungumáli og menningu sem það fæðist inn í (Sæunn Kjartansdóttir, 2015). Með tímanum minnkar viðkvæmni og mótanleiki heilans og meiri fyrirhöfn þarf til að breytingar verði á heilastarfseminni síðar á ævinni (sjá mynd 2). Þessi vitneskja sýnir að á fyrstu æviárum barna gefst gullið tækifæri til þess að stuðla að jákvæðum þroska og velferð þeirra.

Mynd 2. Mótanleiki heilans og fyrirhöfn breytinga eftir aldri https://developingchild.harvard.edu

Í ljósi þekkingar á mikilvægi meðgöngunnar og fyrstu æviáranna hafa stjórnmálamenn í Bretlandi gefið út stefnuyfirlýsingu sem kölluð er 1001 mikilvægu dagarnir (The 1001 critical days; Leadsom, Field, Burstow og Lucas, 2013). Það er þverpólitískt samkomulag sem leggur áherslu á að byggja upp geðheilbrigðisþjónustu fyrir foreldra frá getnaði og fyrstu tvö árin eftir fæðingu. Stjórnvöld í Bretlandi hyggjast gera það með því meðal annars að auka fræðslu og þjálfun starfsmanna sem vinna með fjölskyldur og ungbörn, auka aðgengi foreldra að úrræðum sem stuðla að bættri líðan og geðheilsu og auka samvinnu á milli ólíkra stofnana til að auka líkur á að finna þær fjölskyldur sem þurfa aukna aðstoð og veita þeim viðeigandi stuðning (Leadsom o.fl., 2013).

Skýrsla frá London School of Economics benti á kostnaðinn sem hlýst í samfélaginu ef ekki er veitt sérhæfð geðheilbrigðisþjónusta fyrir foreldra í fæðingarferlinu (Bauer, Parsonage, Knapp, Iemmi og Adelaja, 2014). Þegar þessar kostnaðartölur eru yfirfærðar á íslenskan veruleika samsvarar það árlegum kostnaði í kringum sjö milljarða fyrir hvern árgang sem fæðist á Íslandi ef ekkert er gert. Aðeins hluti kostnaðarins er vegna veikinda eða erfiðleika foreldranna, en um 70% af kostnaðinum verður til vegna barna sem þurfa stuðning og meðferð í félags-, heilbrigðis- og skólakerfinu til 18 ára aldurs. Þá er ótalinn sá kostnaður sem hlýst á fullorðinsárum, t.d. með minni þátttöku í atvinnulífinu og örorku.

Heckman kúrfan      

James Heckman, Nóbelsverðlaunahafi í hagfræði, sýndi fram á með svokallaðri Heckman kúrfu (The Heckman curve; sjá mynd 3) að því fyrr sem fjárfest er í ævi hvers og eins, því meiri verður sparnaður í kerfinu með virkari þátttöku allra (Heckman, 2012). Hann lýsti því að með snemmtækum inngripum fyrir fimm ára aldur fengist 7-10% af árlegum tilkostnaði tilbaka með ýmiskonar sparnaði í þjóðfélaginu, s.s. með bættum árangri í skóla, minni þörf fyrir viðbótarstuðning í skólakerfinu, meiri þátttöku á vinnumarkaðinum ásamt sparnaði í félags-, fangelsis- og heibrigðiskerfinu (Heckman, 2012).

Jákvætt samband hefur fundist á milli áfalla í æsku og örorku á fullorðinsárum (Rose o.fl., 2016; Sansone, Dakroub, Pole og Butler, 2005; Tonmyr, Jamieson, Mery og MacMillan, 2005). Í rannsókn Sanson og fl. (2005) voru þeir, sem höfðu orðið fyrir andlegu ofbeldi í æsku og orðið vitni að ofbeldi, meira en þrisvar sinnum líklegri til að vera á örorku en þeir sem ekki höfðu upplifað slíkt. Þeir sem höfðu búið við líkamlega vanrækslu voru sjö sinnum líklegri til þess að vera skráðir á örorku. Áföll í æsku eru því ekki aðeins íþyngjandi fyrir þau sem í hlut eiga heldur einnig fyrir samfélagið í heild.

Mynd 3. Heckman kúrfan https://heckmanequation.org/resource/the-heckman-curve/

Rannsóknir á snemmtækri íhlutun fyrir foreldra og börn þeirra hafa sýnt að með því að styðja við fjölskyldur ungra barna er hægt að auka foreldrahæfni sem síðan leiðir til betri félagslegs, tilfinningalegs og vitsmunalegs þroska barna, betri námsárangurs og lægri tíðni andfélagslegar hegðunar, afbrota, neyslu og þungunar á unglingsárum (Anderson o.fl., 2003; Berlin, Brooks-Gunn, McCarton og McCormick, 1998; Guralnick, 1997a, 1997b; Love o.fl., 2005).

Fjölmargar skilgreiningar eru til á snemmtækri íhlutun. Þær eiga það sameiginlegt að áhersla er lögð á mikilvægi þess að leitast við að hafa áhrif á þroskaframvindu barna með markvissum aðgerðum eins snemma og unnt er á lífsleiðinni. Nú er það að renna upp fyrir vísindamönnum, starfsmönnum heilbrigðiskerfisins og öðru fagfólki að slík íhlutun er nauðsynleg strax frá getnaði til að barnið fái bestu mögulegu aðstæður til að þroskast strax frá upphafi lífs í móðurkviði.

Það er mikil gróska í þróun snemmtækrar íhlutunar víða um heim, þar sem áhugi fræðimanna, fagmanna og stjórnmálamanna hefur aukist mikið í þessu tilliti undanfarinn áratug vegna aukinnar þekkingar. Snemmtæk íhlutun ætti að fara fram á öllum stigum þjónustu, í heilbrigðis-, mennta- og velferðarkerfinu ef vel á að vera. Mikilvægt er að hún sé heildræn og beinist ekki aðeins að barninu heldur einnig foreldrum þess og fjölskyldu. Þetta gerist t.d. með skimun fyrir geðheilsu- og þroskavanda barna, geðheilsuvanda foreldra, tengslavanda milli foreldra og barna, heimilisofbeldi og félagslegum erfiðleikum sem eru allt áhættuþættir fyrir heilsu og velferð barns. Auk þess er mikilvægt að byggja upp meðferðarúrræði og stuðning fyrir börn og fjölskyldur í vanda. Fjölskyldumiðuð nálgun skiptir hér miklu máli. Sem dæmi um gagnreynda fjölskyldumiðaða nálgun er Fjölskyldubrúin (Beardslee, Wright, Gladstone og Forbes, 2007) fyrir börn foreldra með geðrænan vanda.  Fyrir unglinga í sjálfsvígshættu hefur Tengslamiðuð fjölskyldumeðferð sýnt góðan árangur (Attachment Based Family Therapy; Diamond, Reis, Diamond, Siqueland og Isaacs, 2002).

Menntun starfsfólks í heilbrigðis- og velferðarþjónustu, s.s. heilbrigðis-, skóla-, félags- og réttarkerfi er lykilatriði til þess að fagfólk komi auga á vanda barna, geti brugðist við með viðeigandi hætti og vísað á hlutaðeigandi úrræði þegar það á við. Solihull Aðferðin (Solihull Approach) frá Bretlandi er dæmi um gagnreynda þverstofnanalega fræðslu fyrir fagfólk og foreldra sem hefur gefið góða raun (Appleton, Douglas og Rheeston, 2016; Brigham og Smith, 2014; Douglas og Brennan, 2004; Douglas og Ginty, 2001). Annað dæmi um fræðslu fyrir fagfólk í heilbrigðisþjónustu/heilsugæslu t.d. í Bretlandi, Bandaríkjunum og víða á Norðurlöndum er Newborn Behavioral Observations system (NBO) sem gerir fagfólki kleift að efla læsi foreldra á tjáningu ungbarnsins (Brazelton, 1984; Nugent, Keefer, Minear, Johnson og Blanchard, 2007). Dæmi um sérhæfð inngrip sem hafa gefið góða raun til að auka örugga tengslamyndun barna eru t.d. Circle of Security (Yaholkoski, Hurl og Theule, 2016), Minding the Baby (Slade, Sadler, De Dios-Kenn, o.fl., 2005; Slade, Sadler og Mayes, 2005) og Parent Infant Psychotherapy (Barlow, Bennett, Midgley, Larkin og Wei, 2016).

Snemmtæk íhlutun á Íslandi

Það má segja að á Íslandi hafi orðið vitundarvakning á undanförnum árum varðandi áhuga almennings og þekkingu fagfólks á mikilvægi snemmtækrar íhlutunar í málefnum barna. Fagfólk hefur á undanförnum áratug menntað sig í vaxandi mæli í snemmtækum inngripum, m.a. í þeim meðferðum og aðferðum sem nefndar eru hér að ofan. Mikilvægt er auka enn frekar þekkingu fagfólks og jafnframt auka samvinnu á milli stofnana og þjónustustiga í skóla- og velferðarkerfi okkar. Núverandi ríkisstjórn hefur sýnt skilning í verki á mikilvægi þessa málaflokks með því að setja af stað vinnu í samráði við fagfólk sem hefur unnið í þessum málaflokki við að útfæra átakið breytingar í þágu barna í íslensku samfélagi. Er það lofsvert m.a. að þessi vinna, sem er leidd af nýjum barnamálaráðherra hefur verið þverpólitísk. Það er mjög mikilvægt til að þetta þjóðþrifamál fái áfram brautargengi í framtíðinni.

Lokaorð

Áföll í æsku geta haft mikil og víðtæk áhrif á heislufar og líðan fram á fullorðinsár. Það er ljóst samkvæmt rannsóknum að fjármunum er vel varið í að efla velferð og geðheilbrigði foreldra og barna þeirra. Því fyrr á ævinni sem fjármunum er varið í snemmtæk inngrip því meiru skila þau til baka í formi sparnaðar síðar á ævinni. Við þurfum sem samfélag að setja málefni barna í forgang og leggja okkur fram við að koma í veg fyrir þær alvarlegu afleiðingar sem áföll í æsku geta haft, meðal annars með því að bæta menntun fagfólks sem kemur til með að starfa með börnum og foreldrum, tryggja snemmtæk inngrip á öllum stigum kerfisins og auka samvinnu stofnana í málefnum barna.

Heimildaskrá

Albers, E. M., Riksen‐Walraven, M.J., Sweep, F. C. G. J. og Weerth, C. de. (2008). Maternal behavior predicts infant cortisol recovery from a mild everyday stressor. Journal of Child Psychology & Psychiatry49(1), 97–103. doi:10.1111/j.1469-7610.2007.01818.x

Anda, R. F., Felitti, V. J., Bremner, J. D., Walker, J. D., Whitfield, C., Perry, B. D., … Giles, W. H. (2006). The enduring effects of abuse and related adverse experiences in childhood. European archives of psychiatry and clinical neuroscience256(3), 174–186. doi:10.1007/s00406-005-0624-4

Anderson, L. M., Shinn, C., Fullilove, M. T., Scrimshaw, S. C., Fielding, J. E., Normand, J., … Task Force on Community Preventive Services. (2003). The effectiveness of early childhood development programs. A systematic review. American Journal of Preventive Medicine24(3), 32–46.

Appleton, R., Douglas, H. og Rheeston, M. (2016). Taking part in ‘Understanding your child’s behaviour’and positive changes for parents. Community Practitioner89(2), 42–48.

Bar-Haim, Y., Dan, O., Eshel, Y. og Sagi-Schwartz, A. (2007). Predicting children’s anxiety from early attachment relationships. Journal of Anxiety Disorders21(8), 1061–1068. doi:10.1016/j.janxdis.2006.10.013

Barlow, J., Bennett, C., Midgley, N., Larkin, S. K. og Wei, Y. (2016). Parent–infant psychotherapy: a systematic review of the evidence for improving parental and infant mental health. Journal of Reproductive and Infant Psychology34(5), 464–482.

Bauer, A., Parsonage, M., Knapp, M., Iemmi, V. og Adelaja, B. (2014). Costs of perinatal mental health problems. London, UK: London School of Economics and Political Science.

Beardslee, W. R., Wright, E. J., Gladstone, T. R. G. og Forbes, P. (2007). Long-term effects from a randomized trial of two public health preventive interventions for parental depression. Journal of Family Psychology21(4), 703–713. doi:10.1037/0893-3200.21.4.703

Bellis, M. A., Hughes, K., Leckenby, N., Perkins, C. og Lowey, H. (2014). National household survey of adverse childhood experiences and their relationship with resilience to health-harming behaviors in England. BMC Medicine12(1), 72. doi:10.1186/1741-7015-12-72

Berlin, L. J., Brooks-Gunn, J., McCarton, C. og McCormick, M. C. (1998). The effectiveness of early intervention: examining risk factors and pathways to enhanced development. Preventive Medicine27(2), 238–245. doi:10.1006/pmed.1998.0282

Bernier, A., Carlson, S. M. og Whipple, N. (2010). From external regulation to self-regulation: Early parenting precursors of young children’s executive functioning. Child development81(1), 326–339.

Berthelot, N., Ensink, K., Bernazzani, O., Normandin, L., Luyten, P. og Fonagy, P. (2015). Intergenerational transmission of attachment in abused and neglected mothers: The role of trauma-specific reflective functioning. Infant mental health journal36(2), 200–212.

Bornstein, M. H. og Lamb, M. E. (2002). Development in Infancy: An Introduction (4. útg.). New Jersey, USA: Taylor & Francis.

Boullier, M. og Blair, M. (2018). Adverse childhood experiences. Paediatrics and Child Health28(3), 132–137. doi:10.1016/j.paed.2017.12.008

Brazelton, T. B. (1984). Neonatal behavioral assessment scale. Philadelphia, PA: Lippincott.

Brigham, L. og Smith, A. (2014). Implementing the Solihull Approach: A study of how the Solihull Approach is embedded in the day to day practice of health practitioners. The Open University in the North: Gateshead.

Brown, D. W., Anda, R. F., Felitti, V. J., Edwards, V. J., Malarcher, A. M., Croft, J. B. og Giles, W. H. (2010). Adverse childhood experiences are associated with the risk of lung cancer: a prospective cohort study. BMC public health10, 20. doi:10.1186/1471-2458-10-20

Brown, D. W., Anda, R. F., Tiemeier, H., Felitti, V. J., Edwards, V. J., Croft, J. B. og Giles, W. H. (2009). Adverse childhood experiences and the risk of premature mortality. American Journal of Preventive Medicine37(5), 389–396. doi:10.1016/j.amepre.2009.06.021

Brown, M. J., Thacker, L. R. og Cohen, S. A. (2013). Association between adverse childhood experiences and diagnosis of cancer. PloS One8(6). doi:10.1371/journal.pone.0065524

Chrousos, G. P. (2009). Stress and disorders of the stress system. Nature reviews endocrinology5(7), 374.

Compas, B. E. (1987). Coping with stress during childhood and adolescence. Psychological bulletin101(3), 393.

Cox, A. D., Puckering, C., Pound, A. og Mills, M. (1987). The impact of maternal depression in young children. Journal of Child Psychology and Psychiatry28(6), 917–928. doi:10.1111/j.1469-7610.1987.tb00679.x

Crouch, E., Probst, J. C., Radcliff, E., Bennett, K. J. og McKinney, S. H. (2019). Prevalence of adverse childhood experiences (ACEs) among US children. Child Abuse & Neglect92, 209–218. doi:10.1016/j.chiabu.2019.04.010

Danese, A. og McEwen, B. S. (2012). Adverse childhood experiences, allostasis, allostatic load, and age-related disease. Physiology & Behavior106(1), 29–39. doi:10.1016/j.physbeh.2011.08.019

De Bellis, M. D. (2002). Developmental traumatology: A contributory mechanism for alcohol and substance use disorders. Psychoneuroendocrinology27(1), 155–170. doi:10.1016/S0306-4530(01)00042-7

Diamond, G. S., Reis, B. F., Diamond, G. M., Siqueland, L. og Isaacs, L. (2002). Attachment-based family therapy for depressed adolescents: A treatment development study. Journal of the American Academy of Child & Adolescent Psychiatry41(10), 1190–1196.

Douglas, H. og Brennan, A. (2004). Containment, reciprocity and behaviour management: Preliminary evaluation of a brief early intervention (The Solihull Approach) for families with infants and young children. International Journal of Infant Observation7(1), 89–107. doi:10.1080/13698030408401711

Douglas, H. og Ginty, M. (2001). The Solihull approach: Changes in health visiting practice. Community Practitioner74(6), 222–224.

Fagundes, C. P., Glaser, R. og Kiecolt-Glaser, J. K. (2013). Stressful early life experiences and immune dysregulation across the lifespan. Brain, behavior, and immunity27, 8–12.

Fearon, R. P., Bakermans‐Kranenburg, M. J., IJzendoorn, M. H. V., Lapsley, A. M. og Roisman, G. I. (2010). The significance of insecure attachment and disorganization in the development of children’s externalizing behavior: A meta-analytic study. Child Development81(2), 435–456. doi:10.1111/j.1467-8624.2009.01405.x

Feeney, J., Alexander, R., Noller, P. og Hohaush, L. (2003). Attachment insecurity, depression, and the transition to parenthood. Personal Relationships10(4), 475–493. doi:10.1046/j.1475-6811.2003.00061.x

Feldman, R. (2007). Parent–infant synchrony: Biological foundations and developmental outcomes. Current directions in psychological science16(6), 340–345.

Felitti, V. J. og Anda, R. F. (2010). The relationship of adverse childhood experiences to adult medical disease, psychiatric disorders and sexual behavior: implications for healthcare. Í R. A. Lanius, E. Vermetten og C. Pain (ritstj.), The Impact of Early Life Trauma on Health and Disease (bls. 77–87). Cambridge: Cambridge University Press. doi:10.1017/CBO9780511777042.010

Felitti, V. J., Anda, R. F., Nordenberg, D., Williamson, D. F., Spitz, A. M., Edwards, V., … Marks, J. S. (1998). Relationship of childhood abuse and household dysfunction to many of the leading causes of death in adults: The adverse childhood experiences (ACE) study. American Journal of Preventive Medicine14(4), 245–258. doi:10.1016/S0749-3797(98)00017-8

Fivush, R. (2006). Scripting attachment: Generalized event representations and internal working models. Attachment & Human Development8(3), 283–289. doi:10.1080/08912960600858935

Ford, E. S., Anda, R. F., Edwards, V. J., Perry, G. S., Zhao, G., Li, C. og Croft, J. B. (2011). Adverse childhood experiences and smoking status in five states. Preventive Medicine53(3), 188–193. doi:10.1016/j.ypmed.2011.06.015

Goodman, S. H. og Brogan, D. (1993). Social and emotional competence in children of depressed mothers. Child Development64(2), 516–531. doi:10.2307/1131266

Groh, A. M., Fearon, R. P., Bakermans-Kranenburg, M. J., IJzendoorn, M. H. van, Steele, R. D. og Roisman, G. I. (2014). The significance of attachment security for children’s social competence with peers: A meta-analytic study. Attachment & human development16(2), 103–136. doi:10.1080/14616734.2014.883636

Groh, A. M., Narayan, A. J., Bakermans-Kranenburg, M. J., Roisman, G. I., Vaughn, B. E., Fearon, R. M. P. og IJzendoorn, M. H. van. (2017). Attachment and temperament in the early life course: A meta-analytic review. Child Development88(3), 770–795. doi:10.1111/cdev.12677

Guralnick, M. J. (1997a). Effectiveness of early intervention for vulnerable children: A developmental perspective. American Journal on Mental Retardation102(4), 319–345. doi:10.1352/0895-8017(1998)102<0319:EOEIFV>2.0.CO;2

Guralnick, M. J. (1997b). The effectiveness of early intervention. Paul H. Sótt 23. júlí 2019 af

Haley, D. W. og Stansbury, K. (2003). Infant stress and parent responsiveness: Regulation of physiology and behavior during still-face and reunion. Child Development74(5), 1534–1546. doi:10.1111/1467-8624.00621

Hanson, M. D. og Chen, E. W. C. (2010). Daily stress, cortisol, and sleep: the moderating role of childhood psychosocial environments. Health psychology : official journal of the Division of Health Psychology, American Psychological Association29(4), 394–402. doi:10.1037/a0019879

Heckman, J. J. (2012). Invest in early childhood development: Reduce deficits, strengthen the economy. Sótt 23. júlí 2019 af http://www.co.monterey.ca.us/home/showdocument?id=17884

Hesse, E. og Main, M. (2006). Frightened, threatening, and dissociative parental behavior in low-risk samples: Description, discussion, and interpretations. Development and Psychopathology18(2), 309–343. doi:10.1017/S0954579406060172

Holman, D. M., Ports, K. A., Buchanan, N. D., Hawkins, N. A., Merrick, M. T., Metzler, M. og Trivers, K. F. (2016). The association between adverse childhood experiences and risk of cancer in adulthood: A systematic review of the literature. Pediatrics138(Supplement 1), S81–S91. doi:10.1542/peds.2015-4268L

Iyengar, U., Kim, S., Martinez, S., Fonagy, P. og Strathearn, L. (2014). Unresolved trauma in mothers: Intergenerational effects and the role of reorganization. Frontiers in Psychology5. doi:10.3389/fpsyg.2014.00966

Johnson, M. H. (2001). Functional brain development in humans. Nature Reviews Neuroscience2(7), 475. doi:10.1038/35081509

Juul, S. H., Hendrix, C., Robinson, B., Stowe, Z. N., Newport, D. J., Brennan, P. A. og Johnson, K. C. (2016). Maternal early-life trauma and affective parenting style: The mediating role of HPA-axis function. Archives of Women’s Mental Health19(1), 17–23. doi:10.1007/s00737-015-0528-x

Kafetsios, K. og Sideridis, G. D. (2006). Attachment, social support and well-being in young and older adults. Journal of Health Psychology11(6), 863–875. doi:10.1177/1359105306069084

Kaufman, J., Plotsky, P. M., Nemeroff, C. B. og Charney, D. S. (2000). Effects of early adverse experiences on brain structure and function: Clinical implications. Biological Psychiatry48(8), 778–790.

Kiser, L. J., Bates, J. E., Maslin, C. A. og Bayles, K. (1986). Mother-infant play at six months as a predictor of attachment security at thirteen months. Journal of the American Academy of Child Psychiatry25(1), 68–75.

Leadsom, A., Field, F., Burstow, P. og Lucas, C. (2013). The 1001 critical days: The importance of the conception to age two period: A cross party manifesto. Sótt 26. júlí 2019 af https://www.1001criticaldays.co.uk/sites/default/files/1001%20days_oct16_1st.pdf

Love, J. M., Kisker, E. E., Ross, C., Raikes, H., Constantine, J., Boller, K., … Vogel, C. (2005). The effectiveness of early head start for 3-year-old children and their parents: lessons for policy and programs. Developmental Psychology41(6), 885–901. doi:10.1037/0012-1649.41.6.88

MacLean, P. C., Rynes, K. N., Aragón, C., Caprihan, A., Phillips, J. P. og Lowe, J. R. (2014). Mother–infant mutual eye gaze supports emotion regulation in infancy during the still-face paradigm. Infant Behavior and Development37(4), 512–522.

Madigan, S., Voci, S. og Benoit, D. (2011). Stability of atypical caregiver behaviors over six years and associations with disorganized infant-caregiver attachment. Attachment & Human Development13(3), 237–252. doi:10.1080/14616734.2011.562410

Malik, S., Wells, A. og Wittkowski, A. (2015). Emotion regulation as a mediator in the relationship between attachment and depressive symptomatology: A systematic review. Journal of Affective Disorders172, 428–444. doi:10.1016/j.jad.2014.10.007

Manning, C. og Gregoire, A. (2006). Effects of parental mental illness on children. Psychiatry5(1), 10–12. doi:10.1383/psyt.2006.5.1.10

Manning, L. B. (2018). The relation between changes in maternal sensitivity and attachment from infancy to 3 years. Journal of Social and Personal Relationships, 36(6). doi:10.1177/0265407518771217

McCrory, E., De Brito, S. A. og Viding, E. (2011). The impact of childhood maltreatment: A review of neurobiological and genetic factors. Frontiers in Psychiatry2. doi:10.3389/fpsyt.2011.00048

McCrory, E. J. og Viding, E. (2015). The theory of latent vulnerability: Reconceptualizing the link between childhood maltreatment and psychiatric disorder. Development and Psychopathology27(2), 493–505. doi:10.1017/S0954579415000115

McEwen, B. S. (1998). Stress, adaptation, and disease: Allostasis and allostatic load. Annals of the New York Academy of Sciences840(1), 33–44. doi:10.1111/j.1749-6632.1998.tb09546.x

McEwen, B. S. (2008). Central effects of stress hormones in health and disease: understanding the protective and damaging effects of stress and stress mediators. European journal of pharmacology583(2–3), 174–185. doi:10.1016/j.ejphar.2007.11.071

Merrick, M. T., Ford, D. C., Ports, K. A. og Guinn, A. S. (2018). Prevalence of adverse childhood experiences from the 2011-2014 behavioral risk factor surveillance system in 23 states. JAMA pediatrics172(11), 1038–1044. doi:10.1001/jamapediatrics.2018.2537

Metzler, M., Merrick, M. T., Klevens, J., Ports, K. A. og Ford, D. C. (2017). Adverse childhood experiences and life opportunities: Shifting the narrative. Children and Youth Services Review72, 141–149. doi:10.1016/j.childyouth.2016.10.021

Middlebrooks, J. S. og Audage, N. C. (2008). The effects of childhood stress on health across the lifespan. The National Center for Injury Prevention and Control. Sótt 1. júlí 2019 af http://health-equity.lib.umd.edu/932/1/Childhood_Stress.pdf

Murray, L., Arteche, A., Fearon, P., Halligan, S., Goodyer, I. og Cooper, P. (2011). Maternal

postnatal depression and the development of depression in offspring up to 16 years of

age. Journal of the American Academy of Child & Adolescent Psychiatry50(5), 460–

470.

Nugent, J. K., Keefer, C. H., Minear, S., Johnson, L. C. og Blanchard, Y. (2007). Understanding newborn behavior and early relationships: The Newborn Behavioral Observations (NBO) system handbook. Baltimore, MD, US: Paul H Brookes Publishing.

Pawlby, S., Sharp, D., Asten, P., Mills, A., Kumar, R. og Hay, D. F. (2001). Intellectual problems shown by 11-year-old children whose mothers had postnatal depression. Journal of Child Psychology & Psychiatry & Allied Disciplines42(7), 871.

Ports, K. A., Ford, D. C. og Merrick, M. T. (2016). Adverse childhood experiences and sexual victimization in adulthood. Child Abuse & Neglect51, 313–322. doi:10.1016/j.chiabu.2015.08.017

Ports, K. A., Holman, D. M., Guinn, A. S., Pampati, S., Dyer, K. E., Merrick, M. T., … Metzler, M. (2019). Adverse childhood experiences and the presence of cancer risk factors in adulthood: A scoping review of the literature from 2005 to 2015. Journal of Pediatric Nursing44, 81–96. doi:10.1016/j.pedn.2018.10.009

Rose, S. M. S. F., Eslinger, J. G., Zimmerman, L., Scaccia, J., Lai, B. S., Lewis, C. og Alisic, E. (2016). Adverse childhood experiences, support, and the perception of ability to work in adults with disability. PLoS one11(7), e0157726.

Sansone, R. A., Dakroub, H., Pole, M. og Butler, M. (2005). Childhood trauma and employment disability. The International Journal of Psychiatry in Medicine35(4), 395–404.

Schechter, D. S., Zeanah, C. H., Myers, M. M., Brunelli, S. A., Liebowitz, M. R., Marshall, R. D., … Hofer, M. A. (2004). Psychobiological dysregulation in violence-exposed mothers: Salivary cortisol of mothers with very young children pre- and post-separation stress. Bulletin of the Menninger Clinic68(4), 319–336. doi:10.1521/bumc.68.4.319.56642

Segerstrom, S. C. og Miller, G. E. (2004). Psychological stress and the human immune system: A meta-analytic study of 30 years of inquiry. Psychological bulletin130(4), 601–630. doi:10.1037/0033-2909.130.4.601

Shonkoff, J. P., Boyce, W. T. og McEwen, B. S. (2009). Neuroscience, molecular biology, and the childhood roots of health disparities: Building a new framework for health promotion and disease prevention. JAMA301(21), 2252–2259. doi:10.1001/jama.2009.754

Shonkoff, J. P., Garner, A. S., Siegel, B. S., Dobbins, M. I., Earls, M. F., McGuinn, L., … Care, D. (2012). The lifelong effects of early childhood adversity and toxic stress. Pediatrics129(1), e232–e246.

Shonkoff, J. P. og Richmond, J. B. (2009). Investment in early childhood development lays the foundation for a prosperous and sustainable society. Encyclopedia on early childhood development, 1–5.

Slade, A., Sadler, L., De Dios-Kenn, C., Webb, D., Currier-Ezepchick, J. og Mayes, L. (2005). Minding the baby a reflective parenting program. The Psychoanalytic Study of the Child60, 74–100.

Slade, A., Sadler, L. S. og Mayes, L. C. (2005). Minding the Baby: Enhancing parental reflective functioning in a nursing/mental health home visiting program. Í Enhancing early attachments: Theory, research, intervention, and policy (bls. 152–177). New York, NY, US: Guilford Press.

Soares, A. L. G., Howe, L. D., Matijasevich, A., Wehrmeister, F. C., Menezes, A. M. B. og Gonçalves, H. (2016). Adverse childhood experiences: Prevalence and related factors in adolescents of a Brazilian birth cohort. Child Abuse & Neglect51, 21–30. doi:10.1016/j.chiabu.2015.11.017

Sroufe, L. A. (2005). Attachment and development: A prospective, longitudinal study from birth to adulthood. Attachment and Human Development, 349–367.

Steinberg, L., Vandell, D. L. og Bornstein, M. H. (2010). Development: Infancy Through Adolescence (1. útg.). Belmont, CA: Cengage Learning.

Strine, T. W., Dube, S. R., Edwards, V. J., Prehn, A. W., Rasmussen, S., Wagenfeld, M., … Croft, J. B. (2012). Associations between adverse childhood experiences, psychological distress, and adult alcohol problems. American Journal of Health Behavior36(3), 408–423. doi:10.5993/AJHB.36.3.11

Sæunn Kjartansdóttir (2015). Fyrstu 1000 dagarnir: Barn verður til. Reykjavík, Ísland: Mál og menning.

Tharner, A., Luijk, M. P. C. M., IJzendoorn, M. H. van, Bakermans-Kranenburg, M. J., Jaddoe, V. W. V., Hofman, A., … Tiemeier, H. (2012). Infant attachment, parenting stress, and child emotional and behavioral problems at age 3 years. Parenting12(4), 261–281. doi:10.1080/15295192.2012.709150

Tonmyr, L., Jamieson, E., Mery, L. S. og MacMillan, H. L. (2005). The relation between childhood adverse experiences and disability due to mental health problems in a community sample of women. The Canadian Journal of Psychiatry50(12), 778–783.

Waters, H. S. og Waters, E. (2006). The attachment working models concept: Among other things, we build script-like representations of secure base experiences. Attachment & Human Development8(3), 185–197. doi:10.1080/14616730600856016

Yaholkoski, A., Hurl, K. og Theule, J. (2016). Efficacy of the Circle of Security Intervention: A Meta-Analysis. Journal of Infant, Child, and Adolescent Psychotherapy15(2), 95–103. doi:10.1080/15289168.2016.1163161

Ye, D. og Reyes-Salvail, F. (2014). Adverse childhood experiences among Hawai‘i adults: Findings from the 2010 behavioral risk factor survey. Hawai’i Journal of Medicine & Public Health73(6), 181–190.

Ziv IV, Y., Aviezer, O., Gini, M., Sagi, A. og Karie, N. K. (2000). Emotional availability in the mother–infant dyad as related to the quality of infant–mother attachment relationship. Attachment & Human Development2(2), 149–169. doi:10.1080/14616730050085536

Um höfunda:

Sólrún Erlingsdóttir, BSc sálfræði.

Anna María Jónsdóttir, geðlæknir.

Dr. Sigrún Sigurðardóttir, hjúkrunarfræðingur, dósent við Háskólann á Akureyri.

Útdráttur

Fjölmargar rannsóknir hafa leitt í ljós að streita og áföll í æsku geta haft mikil áhrif á velferð, þroska og heilsu barna og geta áhrifin varað alla ævi ef ekkert er að gert. Meðganga, fæðing og fyrstu árin eftir fæðingu barns er sérstaklega mikilvægur tími þar sem heilinn er viðkvæmur og auðmótanlegur á þeim tíma. Þegar barn upplifir langvarandi streitu geta orðið breytingar á starfsemi og uppbyggingu heilans, ásamt truflun á starfsemi hormóna-, ónæmis- og taugakerfis. Með tímanum minnkar viðkvæmni og mótanleiki heilans og krefjast breytingar á heilastarfseminni síðar á ævinni meiri fyrirhafnar. Sú vitneskja sýnir að á fyrstu æviárum barna gefst gullið tækifæri til þess að stuðla að heilbrigðu þroskaferli og velferð þeirra. Tengsl hafa fundist á milli áfalla í æsku, heilsubrests á fullorðinsárum og auknum líkum á örorku. Einstaklingar eru þá í aukinni hættu á að vera óvirkir í samfélaginu og því getur tapast mikill mannauður. Síðast en ekki síst getur skapast  aukin  þjáning  af skertum lífsgæðum og erfiðri félagslegri stöðu þessa hóps. Allt þetta leiðir til mikils kostnaðar, s.s. í heilbrigðis-, félags- réttar- og menntakerfinu. Snemmtæk inngrip eru mjög mikilvæg og þjóðhagslega hagkvæm, til að grípa inn í aðstæður barna sem búa við langvarandi streitu og erfiðleika til að fyrirbyggja og/eða minnka afleiðingar. Það er þó aldrei of seint að grípa inn í og bæta líðan og velferð ef viðeigandi úrræði eru til staðar. Til þess að koma í veg fyrir þær alvarlegu afleiðingar sem áföll í æsku geta haft,  þarf  að bæta menntun fagfólks,  tryggja snemmtæk, viðeigandi inngrip á öllum stigum kerfisins og auka samvinnu stofnana í málefnum barna.

Abstract

A growing body of research has shown that adverse childhood experiences can have long term effect on children´s development, health and well-being, with life-long consequences. The time during pregnancy, birth and the first years postnatally is especially important as this is a very sensitive period for brain development. When a child is exposed to long term (toxic) stress it can lead to permanent changes in brain development both structurally and functionally as well as a disturbance in the function of hormonal-, immune- and nervous systems. With growing age, the brain becomes less sensitive and therefore more time and effort is needed to make changes in brain function. It is therefore evident that there is a window of opportunity in early childhood for timely interventions aimed to optimize children’s development and wellbeing. This has implications for wellbeing in adulthood on the basis of research showing a positive trend between adverse childhood experiences and disability later in life. People with a history of childhood trauma are likely to be less productive as adults, causing loss for the society. This also leads to pain and loss for the affected individuals due to increased social adversity and reduced quality of life. All of this contributes to increased cost for the society e.g. in the health- social- justice- and educational systems. Early intervention for children who are in adverse circumstances and suffer long term (toxic) stress is therefore crucial and has proven to be a good investment for the society as a whole.  Education of professionals working with children and their families is important for early intervention and prevention, as well as building appropriate, tiered services and improve interagency collaboration in the interest of children´s safety and wellbeing.

Menu